Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bæjarráð Akureyrar gagnrýnir hækkun ferjufargjalda

20.02.2021 - 07:31
Mynd með færslu
Sæfari siglir út úr Grímseyjarhöfn Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Bæjarráð Akureyrar mótmælir boðaðri hækkun fargjalda og farmgjalda í ferjuna Sæfara, sem sér um fólks- og vöruflutninga milli Dalvíkur, Hríseyjar og Grímseyjar. Áformað er að hækka fargjöldin um 12 próent í maí, og farmgjöldin um 14 prósent.

Endanleg ákvörðun þar um liggur þó ekki fyrir, segir í Fréttablaðinu, sem fjallar um málið í dag. Haft er eftir Hildu Jönu Gísladóttur bæjarfulltrúa að líta beri á ferjuna eins og aðra þjóðvegi, enda skerði aukinn kostnaður búsetumöguleika fólks í eyjunum, sem báðar eru hluti af Akureyrarbær.

Jafngildir veggjöldum á suma landsmenn

Hilda Jana segir gjöld í ferjur landsins jafngilda veggjöldum á suma landsmenn og málið í eðli sínu byggðamál; spurning um það, hvort samfélagið vilji stuðla að því að viðhalda byggð í eyjunum tveimur. Aðgerðaleysi sé líka aðgerð, segir Hilda Jana, og með því að gera fólki það erfiðara og dýrara að búa á ákveðnum stöðum sé í raun verið að taka afstöðu gegn því.

Samkvæmt núverandi gjaldskrá, sem er frá 2018, kostar það 1.500 krónur fyrir fullorðna að sigla með Sæfara milli lands og Hríseyjar en 3.000 krónur til Grímseyjar, aðra leiðina, og enginn afsláttur gefinn þótt siglt sé fram og til baka. Ellilíferyisþegar og börn milli 12 og 15 ára greiða hálft gjald, en yngri börn greiða ekkert.

Vill gjaldfrjálsar ferðir í ferjur landsins

Hilda Jana er á því að ferjuferðirnar eigi að vera gjaldfrjálsar, í það minnsta fyrir eyjaskeggja. Þá myndi það eflaust styðja vel við ferðamennskuna í þessum brothættu byggðum, ef fargjöld yrðu felld niður fyrir alla.

Frumvarp um þjóðferjur, sem Karl Gauti Hjaltason og þrettán aðrir þingmenn úr Miðflokki, Samfylkingu, Sjálfstæðisflokki og Vinstri hreyfingunni grænu framboði lögðu fram, er nú til umræðu á þingi. Í því er lagt til að Sæfari, Baldur og Herjólfur verði hluti af grunn-samgöngukerfi landsins.