Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Yfir 10 milljónir smita hafa greinst í Brasilíu

epa09021647 Members of the Black Coalition for Rights, an alliance made up of more than 200 social and Afro movements, take part in a demonstration with empty plates in front of the headquarters of the Central Bank of Brazil, on Paulista Avenue, in Sao Paulo, Brazil, 18 February 2021. Activists demanded the reactivation of subsidies for the poorest families and the vaccination of the entire population.  EPA-EFE/Sebastiao Moreira
Mótmælendur krefjast neyðaraðstoðar fyrir fátækustu íbúa landsins og bólusetningar fyrir alla, fyrir utan höfuðstöðvar brasilíska seðlabankans í Sao Paulo. Mynd: EPA-EFE - EFE
Tæplega 52.000 manns greindust með COVID-19 í Brasilíu síðasta sólarhringinn. Þar með er Brasilía orðið þriðja ríkið í heiminum þar sem fleiri en tíu milljónir smita hafa verið staðfest. Hin löndin eru Bandaríkin, þar sem staðfest tilfelli nálgast 28 milljónir, og Indland, þar sem nær ellefu milljónir hafa greinst með kórónaveiruna sem veldur sjúkdómnum.

1.367 dauðsföll voru rakin til COVID-19 í Brasilíu í gær og eru þau orðin nær 243.500 talsins. Einungis í Bandaríkjunum hafa fleiri dáið úr COVID-19 svo vitað sé, eða 493.000 manns.

Tafir á bólusetningu

Bólusetning er hafin í Brasilíu en hefur ekki gengið sem skyldi. Notast er við bóluefni AstraZeneca og kínverska bóluefnið CoronaVac. Í báðum tilfellum þarf að bólusetja fólk tvisvar til að ná fram fullri virkni. Um sex milljónir manna, um þrjú prósent brasilísku þjóðarinnar, hafa nú fengið fyrri skammtinn, en miklum mun færri þann seinni vegna skorts á bóluefni.

Skorturinn hefur knúið heilbrigðisyfirvöld til að stöðva bólusetningu alveg í fjölda borga og bæja, þar á meðal í stórborginni Ríó de Janeiro. Heilbrigðisráðherrann, Eduadro Pazuello, sagði fyrr í þessari viku að von væri á 230 milljónum skammta af bóluefni til landsins fyrir júlílok, þar á meðal af Spútnik-bóluefni frá Rússlandi og Covaxin frá Indlandi, auk þeirra sem áður voru nefnd.