Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vel gekk fyrsta daginn - tíu án vottorðs

Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Tíu farþegar sem komu til landsins í dag gátu ekki framvísað vottorði um smitleysi eins og nýjasta sóttvarnarreglan kveður á um. Lögreglu og starfsfólki gekk vel að afgreiða komufarþega. Yfirlögregluþjónn segir í skoðun að koma flugrútunni af stað á ný. 

Flókið fyrir þá sem fengið hafa COVID-19

Aðeins tvær flugvélar komu til landsins í dag. Sú fyrri frá Boston í morgun með 36 farþega og sú seinni klukkan þrjú frá Kaupmannahöfn með 75 farþega. Rétt eftir miðnætti kemur svo vél frá Varsjá og eiga 220 manns bókað flug með henni. 

Birna Helga Kristinsdóttir sem var að koma til landsins sagði allt hafa gengið eins og í sögu. Jóhannes B. Gíslans var sammála og sagði ekki hafa verið langa röð í sýnatökun. 

Og þó að fólk hafi fengið COVID þá getur það verið jafnflókið eða jafnvel flóknara heldur en að fá uppáskrifað að fólk sé ekki með smit. Í því lenti Þóra Kristín Arnarsdóttir: 

„Það var alveg tveggja sólarhringa kvöl í Svíþjóð af því að það var mjög óskýrt að þeir sem væru búnir að fá COVID mættu fara.“

Töfðust þið á leiðinni hingað?

„Nei ég hafði bara samband við sendiráðið í Stokkhólmi og þeir voru svo hjálplegir og svöruðu mér og borgaraþjónustan líka,“ segir Þóra Kristín. 

40 mínútur að afgreiða 75 farþega

Fjórðungur farþeganna með Bostonfluginu eða níu manns voru ekki með PCR - vottorð en aðeins einn sem kom með Kaupmannahafnarfluginu. 

„Þetta voru 36 farþegar í morgun og tókum 40 mínútur að afgreiða þá. Núna voru 75 farþegar frá Kaupmannahöfn og það tók um hálftíma,“ segir Sigurgeir Sigmundsson yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurnesjum. 

Komufarþegar verða ekki sektaðir um helgina þótt þeir séu vottorðslausir. Ríkissaksóknari á eftir að ákveða sektarupphæð.

Erfitt að koma skilaboðum til útlendinga sem búsettir hér

Brögð hafa verið að því að fólk sæki farþega á flugvöllinn en það er bannað og lögreglan fylgist með því. Í dag mátti sjá eina í nokkurs konar sóttvarnabúningi að sækja tvo farþega. 

„Það er alltaf minna og minna. En það er alltaf erfitt að koma þessum skilaboðum til útlendinga sem eru búsettir hér. Þau virðast ekki koma nógu vel þangað.“

Einu leiðirnar fyrir farþega að komast frá vellinum er ef einhver hefur skilið eftir bíla handa þeim eða að leigja bíl eða að taka leigubíl.

Flugrútan kannski í gang aftur

Samgöngustofa, Almannavarnir og fleiri eru að athuga hvort hægt sé að koma flugrútunni í ferðir á ný: 

„Ég minni nú á það að flugfélag fær greitt úr ríkissjóði fyrir að fljúga. Og þetta er leið sem farþegum er bent á að fara héðan þ.a. við viljum endilega koma flugrútunni af stað aftur,“ segir Sigurgeir. 

Skilaði ekki minnisblaði í dag

Sóttvarnalæknir sagðist í gær vera með í smíðum minnisblað um tilslakanir á sóttvörnum. Ekki er vitað hvenær hann sendir ráðherra minnisblaðið en hann gerði það ekki í dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sigurgeir Sigmundsson.