Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Þrír stjórnarþingmenn rýna í RÚV

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur falið þremur fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna; Kolbeini Óttarssyni Proppé þingmanni Vinstri grænna, Silju Dögg Gunnarsdóttur þingmanni Framsóknarflokksins og Páli Magnússyni fyrrverandi útvarpsstjóra og þingmanni Sjálfstæðisflokks að rýna lög um Ríkisútvarpið ohf. og gera tillögur að breytingum sem líklegar eru til að sætta ólík sjónarmið um starfsemi og hlutverk þess.

Í tilkynningu frá Mennta- og menninngarmálaráðuneytinu segir að þeim sé meðal annars ætlað að rýna núverandi skilgreiningu á hlutverki Ríkisútvarpsins og meta hvort þörf sé á endurskilgreiningu þess, leggja mat á hvernig það geti sem best náð markmiði laga um stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi og hvernig það sinni best öryggishlutverki sínu með hugsanlegu samstarfi við aðra fjölmiðla.

Þá er þeim ætlað að rýna gildandi kröfur og reglur um dreifikerfi Ríkisútvarpsins og hvort þörf sé á frekari uppbyggingu kerfisins eða grundvallarbreytingum á skipulagi þess og meta hvernig fjármögnun RÚV sé best komið. Einnig eiga þeir að nýta þær athuganir og skýrslur sem gerðar hafa verið á síðustu árum um stöðu RÚV og fjölmiðla og afla upplýsinga um aðra almannaþjónustumiðla í Evrópu.

Ráðgert er að þingmennirnir þrír ljúki störfum eigi síðar en 31. mars. 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir