Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrír á dag leita á LSH í Fossvogi með andleg veikindi

19.02.2021 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Um þrír á dag leita á bráðamóttökuna í Fossvogi vegna andlegra veikinda. Alls um 940 á síðasta ári. Bráðageðdeildin er opin í sjö klukkutíma á dag, sem er ekki nóg segir kona sem þurfi aðstoð utan þjónustutíma. Yfirlæknir segir að öllum bráðatilvikum sé sinnt í Fossvogi.

Íris Hólm Jónsdóttir gagnrýnir á Facebook að enginn geðlæknir eða sálfræðingur sé á vakt á bráðamóttöku í Fossvogi þegar bráðamóttaka geðsviðs sé lokuð. Hún hafi leitað að næturlagi í Fossvoginn vegna andlegra veikinda og fengið val um að bíða í móttökunni eftir því að geðdeildin opnaði eða fara heim og mæta beint þangað morguninn eftir. Bráðamóttaka geðþjónustunnar er opin frá 12 til sjö virka daga. Utan þess tíma er fólki vísað á bráðamóttökuna í Fossvogi. 

Kæra Svandís Svavarsdóttir Í fyrrinótt þurfti ég að leita á bráðamóttöku í Fossvogi vegna andlegra veikinda. Ég...

Posted by Íris Hólm Jónsdóttir on Fimmtudagur, 18. febrúar 2021

„Það er algengur misskilningur að Landspítali sé á sólarhringsvöktum á bráðamóttöku allra sérgreina. Raunveruleikinn er sú að bráðamóttaka Landspítala í Fossvogi er mönnuð sérmenntuðum læknum og hjúkrunarfræðingum sem taka á móti öllum bráðum slysum og veikindum, óháð því hvaða tegund það er. Og síðan er kallaðir til læknar af bakvöktum á öðrum deildum eftir því hver þörf krefur á,“ segir Hjalti Már Björnsson bráðalæknir á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi.

Er fólki sem er vísað frá þá ekki með brýn tilvik að mati þeirra? „Það er þá metið þannig að það sé ekki þörf á innlögn og það sé óhætt að bíða til nánara mats á sérhæfðri göngudeild daginn eftir. Og það er í engu frábrugðið við þá þjónustu sem er við hjartasjúkdóma eða beinbrot eða annað.“

Í Fossvoginn leituðu 940 manns vegna andlegra veikinda á síðasta ári, svipað margir og árið á undan - flestir á tíma þegar geðdeildin er lokuð. Ekki er að merkja fjölgun vegna farsóttarinnar. „Það eru um þrír á dag sem leita til okkar beinlínis út að andlegum veikindum. Sumir af þeim sem eru með andleg veikindi eru jafnframt með áverka og líkamleg veikindi undirliggjandi. Þess vegna er besti fyrsti viðkomustaður við bráðar ástæður að þú sért metinn heildrænt við bráðamóttöku.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV