Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Þriðjungur landsmanna treystir Alþingi

19.02.2021 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landhelgisgæslan er sú stofnun samfélagsins sem flestir bera traust til og forsetaembættið er í öðru sæti. Traust fólks á heilbrigðiskerfinu hefur aukist mikið síðan í fyrra, þriðjungur landsmanna ber traust til Þjóðkirkjunnar og Alþingis og um einn af hverjum fimm treystir borgarstjórn Reykjavíkur. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup.

Þar kemur fram að traust almennings á opinberum stofnunum hafi almennt aukist. 86% bera traust til Landhelgisgæslunnar, sem er þremur prósentustigum minna en í fyrra.  80% segjast bera traust til embættis forseta Íslands sem er lítilsháttar aukning frá því í fyrra og 79% treysta heilbrigðiskerfinu, en það er 22% meira en í fyrra.

 

Um sjö af hverjum tíu treysta lögreglunni, litlu færri, eða 62%, bera traust til Seðlabankans og tæpur helmingur treystir dómskerfinu. 32% segjast treysta Þjóðkirkjunni sem er svipað hlutfall og í fyrra.

Einn af hverjum fjórum treystir bankakerfinu, en traustið hefur aukist jafnt og þétt frá bankahruni. Það sama má segja um traust til Seðlabankans sem mælist nú 62%, 17 prósentustigum meira en  í fyrra.