Sá tvíburaturnana út um svefnherbergisgluggann
Upprunalega stóð til að dvelja aðeins í níu mánuði í landinu en þeir urðu fljótlega að sextán árum enda leið Snorra eins og heima hjá sér framan af. Snorri finnur fyrir söknuði þegar hann hugsar til borgarinnar og lýsir sjálfum sér sem New York-manni inn að beini.
Hann lifði mikla umbrotatíma í borginni og minnist þess meðal annars að hafa verið með útsýni yfir tvíburaturnana sálugu út um svefnherbergisgluggann sinn. Hann fluttist þangað í forsetatíð George W. Bush og bjó í borginni á meðan Obama sat í forsetastól. „Og svo kom síðasti forseti sem ég kýs að nefna ekki á nafn,“ segir Snorri um Donald Trump. „En þessi borg er stórkostleg. Þó ég sé fluttur þaðan þá verður hún alltaf í sál minni. Mér finnst alltaf gaman að koma þangað aftur og ég á marga vini og hef tengst henni djúpum böndum.“
Skuggahliðar Bandaríkjanna
Hann segir margt frábært við Ameríku en að hún eigi líka sínar skuggahliðar. Snorri flutti heim með fjölskyldunni fyrir nokkrum árum þegar hann fann að hann var kominn að þolmörkum að miklu leyti. „Það eru ákveðnir hlutir sem ég gat ekki sætt mig við lengur. Eins og það að hafa ekki aðgang að heilbrigðistryggingu nema þú sért nánast milljónamæringur,“ segir Snorri. „Og ég var að horfa fram á að geta ekki sett syni mína í almennilega háskóla.“
Hann er ekki einn um ósættið. „Það eru þættir í samfélaginu sem eru bara brotnir og ganga ekki upp. Það er stöðugt aukinn stígandi í því, fólk er minna og minna að sætta sig við þetta.“ Skoðanir séu þó skiptar og þjóðfélagið að miklu leyti klofið.
Ameríski draumurinn rennur fólki úr greipum
Snorri er ekki bjartsýnn á að Joe Biden, núverandi forseta, takist að sameina þjóðina í bráð. Hann segir að í forsetatíð Donalds Trump hafi mikil niðurrifsstarfsemi verið unnin á bak við tjöldin og að það muni taka langan tíma að byggja samfélagið aftur upp. „Trump er bara birtingarmynd ótrúlegra afla í Bandaríkjunum. Það er mikil óánægja undir niðri og millistéttin er að minnka,“ segir hann. Og talandi um ameríska drauminn. „Hann virðist vera að renna fólki úr greipum fleiri og fleiri.“
Fólk verður undir sem aldrei finnur ameríska drauminn
Hann segir að í raun eigi flestir sér sína útgáfu af ameríska draumnum og hann sé einstaklingsbundinn að mörgu leyti. „Ég upplifði mína tegund af ameríska draumnum og fyrir mörgum er hann frábær, en fyrir mörgum er hann líkari martröð,“ segir Snorri. „Það er eins og gengur og gerist í hvaða samfélagi sem er en þessi mýta er bara áhugaverð. Ég er ekki að reyna að drepa hana eða sanna, þetta er bara mín upplifun á þessu fyrirbæri persónulega. Það fólk verður undir í þessari baráttu sem finnur ekki þennan draum.“
Má segja að borgarastyrjöld sé hafin
Árásin á þinghúsið 6. janúar var honum og fjölskyldunni nokkuð áfall en kom þeim samt ekki á óvart. Hann hafði lengi grunað í hvað stefndi. „Frá því Trump var tilnefndur forsetaefni Repúblikana 2016 hef ég verið að segja: Það er að fara að koma borgarastyrjöld í Bandaríkjunum.“
En það voru alls ekki allir sannfærðir um að það stefndi í slíkt óefni. „Fólk horfði bara á mig eins og ég væri með tvö höfuð, en þetta er beisiklí búið að gerast. Það sem við sáum sjötta janúar er raunveruleg valdaránstilraun þannig að í sjálfu sér má segja að það sé borgarastyrjöld í gangi.“
Saknar en finnur ekki eftirsjá
Fjölskyldunni líður vel á Íslandi og finnst ótrúlega gott að búa hér þó að New York muni þau alltaf sakna að einhverju leyti. En orkan sem Snorra fannst borgin upprunalega veita sér fór eftir sextán ára dvöl að snúast upp í andhverfu sína. „Þetta er mjög krefjandi staður og þegar maður er búinn að fá nóg lítur maður ekki til baka,“ segir hann. „En það er fullt af hlutum sem ég sakna. Lykt, hljóð og fólk. En það er ekki með eftirsjá.“
Ljósmyndasýningin American Dreams stendur yfir í Gallerí Porti út laugardag. Rætt var við Snorra Sturluson ljósmyndara í Morgunútvarpinu á Rás 2.