Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Telur að hægt verði að endurvinna traust farþega

19.02.2021 - 19:45
Þjálfun flugmanna Icelandair á Boeing Max flugvélar er í fullum gangi og styttist í að þær verði teknar í notkun. Bæði flugrekstrarstjóri og þjálfunarflugstjóri segja vélarnar öruggar, enda búnar að fara í gegnum afar strangt endurskoðunarferli. 

Um tvö ár eru síðan Boeing 737 Max vélar voru kyrrsettar eftir tvö flugslys, en galli reyndist í stýrikerfi vélanna, sem átti að koma í veg fyrir ofris. Farið var í mikla vinnu við úrbætur á gallanum og hafa flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum og Evrópu fyrir nokkru veitt heimild fyrir því að fljúga megi vélunum. Icelandair setti fimm Max vélar í geymslu á Spáni og eru nokkrar þeirra komnar aftur og undirbúningur hafinn að því að taka þær í notkun.

„Við erum byrjuð að þjálfa flugmenn og gera klárt,“ segir Haukur Reynisson flugrekstrarstjóri Icelandair. „Það sem okkur vantar fyrst og fremst núna eru farþegar til að fljúga þar sem flest landamæri eru lokuð í kringum okkur, en við erum byrjuð að undirbúa á fullu endurkomu Max vélanna.“

Haukur segir að í raun hafi öryggiskerfi flugsins gripið inn í á sínum tíma þegar ákveðið var að kyrrsetja vélarnar á meðan komist væri að rótum vandans. Það ferli hafi verið einsdæmi í flugsögunni.  Hann telur að hægt verði að endurvinna traust farþega.

„Við reiknum með því að fólk horfi til sömu hluta og við eru að horfa til. Það er búið að fara með vélarnar í gegnum þetta umfangsmikla ferli og treystum því að það sé vel gert og ítarlega gert og reiknum með að fólk horfi á þetta með sama hætti og við gerum.“

Kára Kárason þjálfunarflugstjóri Icelandair segist fagna því að vélarnar verði teknar aftur í notkun, gott sé að fljúga þeim og flugmenn félagsins efist ekki um öryggi þeirra. Þjálfunin hafi aðeins breyst eftir endurbæturnar. 

„Það er ekki mjög mikið sem bætist við. En það er þó nokkuð og það er þá aðallega virkni þessara kerfa sem voru endurbætt. Það er helsta áskorunin hjá okkur að æfa það,“ segir Kári. Hann segir að þjálfunin felist ekki síst í upprifjun. „Það er langur tími liðinn síðan við flugum vélinni, og við erum að rifja upp eitt og annað. Þannig að það eru þó nokkrar þjálfunarlotur sem við tökum áður en við byrjum að fljúga vélinni aftur.“