Skrekkur 2020 verður í mars 2021

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Skrekkur 2020 verður í mars 2021

19.02.2021 - 15:56

Höfundar

Æfingaferlið fyrir Skrekk hefur reynst mörgum skólum snúið vegna kórónuveirufaraldurins. Dæmi eru um að æfingar hafi farið fram í gegnum fjarfundabúnað.

 

Fulltrúar Skrekks og UngRÚV fara í alla grunnskóla í Reykjavík og hitta þátttakendurna í Skrekk. Þau fara yfir atriðin, gefa ráð og koma með punkta og undirbúa útsendingu á undankvöldum og úrslitum.

COVID-19 hefur víða sett strik í reikninginn. Sumir byrjuðu undirbúning fyrir ári en einhverjir skólanna hafa oftar en einu sinni þurft að koma með nýja hugmynd að atriði vegna þess hve hópurinn hefur breyst. Stundum hafa æfingar farið fram í gegnum fjarfundabúnað.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Skrekkur er ljósið í myrkrinu

„Ég hef verið í sambandi við unglingana sem þrá að halda Skrekk. Sumir hafa talað um að vonin um hann sé ljósið í myrkrinu í covid. Þess vegna höfum við gert allt sem við mögulega getum til að láta drauminn um Skrekk rætast og það er bara magnað að þetta sé að gerast,“ segir Harpa Rut Hilmarsdóttir framkvæmdastjóri Skrekks.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Mikil óvissa um hvort af Skrekk yrði 2020 

 

Skrekkur 2020 átti að vera í nóvember síðastliðnum. Þá voru strangar samkomutakmarkanir og því var ákveðið var að fresta honum. frekar en að hætta við enda er hann mikilvægur þáttur í unglingamenningunni í Reykjavík.

Skrekkur 2020 verður því haldinn í mars 2021. Vegna faraldursins verður framkvæmdin með öðru sniði en venjulega. Auk þess eru færri skólar sem sjá sér fært að taka þátt í keppninni enda er skólaárið þaulskipulagt. Skrekkur 2021 verður þó vonandi haldinn á sínum hefðbundna tíma í nóvember.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Heimsfaraldur ekki í brennidepli hjá keppendum

 

Atriðin eru ótrúlega fjölbreytt en eiga þó öll sameiginlegt að vera unnin af miklum metnaði. Á þeim sést að það fer fátt fram hjá unglingum og þau nýta þennan frábæra vettvang ekki bara til að láta ljós sitt skína heldur líka til að koma sínum skoðunum á framfæri. Það kemur á óvart hversu lítið er um að atriðin snúist um kórónuveirufaraldurinn miðað við hvað hann hefur tekið mikinn toll af undirbúningnum og hvað krakkarnir horfa jákvæðum augum og full af tilhlökkun til Skrekks.

Undankeppni Skrekks verður dagana 1., 2. og 3. mars í Borgarleikhúsinu og sýnd í beinu streymi á UngRUV.is

Úrslitakvöldið verður mánudaginn 15. mars og sýnt í beinni útsendingu á RÚV.