Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Siv Jensen boðar brottför úr stjórnmálunum

19.02.2021 - 01:37
epa08144461 Progress party leader Siv Jensen speaks during a press conference in Oslo, Norway, 20 January 2020, announcing that the Progress party will leave the Norwegian government.  EPA-EFE/Fredrik Varfjell  NORWAY OUT
 Mynd: EPA-EFE - NTB-Scanpix
Siv Jensen tilkynnti í gær að hún ætli að láta af formennsku í norska Framfaraflokknum, eftir fimmtán ára setu í formannsstólnum. Hún hvetur flokkssystkini sín til að kjósa Sylvi Listhaug til að taka við formennskunni. Jensen greindi frá þessu á fréttamannafundi í þinghúsinu í Osló í gær og sagðist finna hjá sér þörf fyrir að breyta til.

Hún sagðist hafa greint uppstillingarnefnd flokksins frá því fyrr um daginn, að hún hygðist ekki bjóða sig fram í þingkosningunum í haust og að flokkurinn þurfi þar af leiðandi að velja sér nýjan formann á flokksþinginu í maí. 

Ekki auðveld ákvörðun

Jensen segir þetta ekki hafa verið auðvelda ákvörðun, en hún sé sannfærð um að þetta hafi verið rétt ákvörðun, bæði fyrir flokkinn og hana. Jensen hefur setið á þingi fyrir Framfaraflokkinn frá 1997 og tók við formennskunni af Carl I. Hagen árið 2006. Þremur árum síðar leiddi hún flokkinn til síns stærsta kosningasigurs, þegar hann fékk nær 23 prósent atkvæða og 41 fulltrúa á stórþinginu. 

Jensen hefur verið einn valdamesti og mest áberandi stjórnmálamaður allar götur síðan og óumdeildur leiðtogi Framfaraflokksins, en öllu umdeildari utan hans. Hún er nú þingflokksformaður flokksins og var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Ernu Solberg frá 2013 til janúar 2020, en þá sleit hún stjórnarsamstarfinu við Hægriflokk Solbergs.

Sem fyrr segir mælir hún með Sylvi Listhaug, þingmann og fyrrverandi ráðherra, í sinn stað, enda sé hún öflug þingkona með bein í nefinu og hafi þegar lýst því yfir að hún ætli að bjóða sig fram til þings í haust. Þá telur Jensen Ketil Solvik-Olsen besta varaformannsefnið. Hann er fyrrverandi þingmaður, ráðherra og annar varaformaður flokksins, en hefur ekkert gefið upp um það enn, hvort hann ætli í framboð í ár.

Á brattann að sækja fyrir flokkinn í kosningunum

Kosið verður til norska stórþingsins 13. september næstkomandi og þar er á brattann að sækja fyrir Framfaraflokkinn, ef marka má skoðanakannanir, þar sem fylgi flokksins hefur mælst með minna móti að undanförnu.

Jensen segir það þó ekki hafa haft nein áhrif á þessa ákvörðun sína. Hún hafi verið á þingi í 24 ár og flokksformaður í 15 ár og nú finnist henni einfaldlega kominn tími til að snúa við blaðinu. „Þetta snýst um sjálfa mig. Ég hef þörf fyrir að gera eitthvað annað, ég þarf meiri tíma fyrir sjálfa mig," segir Jensen.