Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Metanristað kaffi og metanþurrkað malbik

19.02.2021 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Metan frá gas- og jarðgerðarstöð Sorpu verður notað til að þurrka steinefni til malbiksgerðar og rista kaffibaunir. Búið er að semja um notkun stórs hluta metansins sem verður til í stöðinni. 

Búið að ráðstafa rúmlega þriðjungi metansins

Myglað brauð, kaffifilterar, bananahýði. Áður var þetta urðað en nú er lífrænu sorpi frá íbúum höfuðborgarsvæðisins breytt í moltu og metanið sem verður til við niðurbrot þess fangað. Það er enn verið að keyra gas- og jarðgerðarstöðina upp í full afköst en það er stefnt að því að hún framleiði þrjár milljónir rúmmetra af metani á ári. Malbikstöðin á Esjumelum hefur tryggt sér þriðjunginn af því. „Þegar maður er að framleiða malbik fer gífurleg orka í að þurrka og hita steinefni, við það er notaður díselbrennari og við ætlum að skipta díselbrennaranum út fyrir metanbrennara og leggja leiðslu hérna upp í GAJU,“ segir Vilhjálmur Þór Matthíasson, eigandi og fframkvæmdastjóri  Malbikstöðvarinnar. Við þetta minnkar úblástur töluvert.

Ætla að metanvæða vörubílaflotann

Á næstu árum ætlar Malbikstöðin svo að seilast eftir enn meira metani úr GAJU, jafnvel milljón rúmmetrum til viðbótar, því til stendur að skipta vörubílum fyrirtækisins út fyrir metanbíla. Það tekur nokkra mánuði að leggja lögnina, þannig að það styttist í að díselbrennarinn fari á eftirlaun. „VIð stefnum að því að vera með grænasta malbik í heimi,“ segir Vilhjálmur. 
Startkostnaðurinn nemur meira en hundrað milljónum en metanið er um það bil helmingi ódýrara en dísillinn og því borga orkuskiptin sig til lengri tíma litið. Hann vonar líka að umhverfisvænni áherslur veiti fyrirtækinu samkeppnisforskot. 

Metanristað kaffi 

Fleiri vilja metan. Innan nokkurra mánaða verður hægt að fá metanristað kaffi. „Við höfum verið að nota kósangas við að rista kaffi, hingað til, en með því að skipta yfir í metangas þá náum við að núlla út kolefnissporið okkar hér á Íslandi,“ segir Kristín María Dýrfjörð, eigandi Te og kaffi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Frá kaffibrennslu Te og kaffi í Hafnarfirði
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Bráðum verða þessar ristaðar með metani. Metan er fílsterk gróðurhúsalofttegund en verður öllu meinlausari þegar henni er brennt.

Framkvæmdin á að borga sig upp á fimm árum. „Þegar á hólminn er komið þá er þetta svona um 20-30% sparnaður á ári,“ segir hún. Stefnt er að því að nýi metantankurinn verði kominn upp í maí. Hann er töluvert stærri en kósantankurinn og kominn með sitt eigið pláss handan götunnar, þaðan liggur svo leiðsla yfir í brennsluna. Skýlið er steypt og komið með fasteignanúmer, Kristín María segir það eiginlega minna á þaklaust hús. „Þetta er risastór tankur, miklu stærri en við bjuggumst við.“ 

Fleiri áhugasamir

Sem fyrr sagði er enn verið að keyra gas- og jarðgerðarstöð Sorpu upp í full afköst, miðað við núverandi afköst getur hún framleitt 800 þúsund rúmmetra af metani á ári en stefnt er á því að hún framleiði þrjár milljónir rúmmetra. Við það bætist svo metan sem safnað er frá urðunarstöðum, tæpar tvær milljónir rúmmetra. Gunnar Dofri Ólafsson, upplýsingafulltrúi Sorpu, segir að fleiri en Malbikstöðin og Te og kaffi ásælist metanið og einhverjar umleitananna nálgist viðræðustig. Á meðal áhugasamra sé erlent fyrirtæki sem hafi áhuga á að vökvagera metanið og flytja það úr landi. „Það er klárlega markaður fyrir þetta,“ segir Gunnar.