Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Með rafmagnið í eftirdragi

Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Þrettán björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar fengu í dag færanlegar rafstöðvar en alls verða þrjátíu slíkar afhentar á árinu. Með þessu á að draga úr líkum á rafmagns- og fjarskiptaleysi líkt og varð sums staðar á Norðurlandi í óveðri sem geisaði fyrir rúmu ári.

Aftakaverður gekk yfir landið í desember 2019 og olli miklu tjóni. Samgöngur röskuðust verulega eða lögðust hreinlega af. Þá lamaðist atvinnulíf á þeim svæðum sem urðu illa úti vegna rafmagnsleysis. Á stórum sværðum varð rafmagnslaust sem hafði þær afleiðingar að fjarskiptakerfi raskaðist og leiddi til sambandsleysis við umheiminn á stórum svæðum.

Til þess að reyna að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig voru þrettán björgunarsveitum afhentar í dag færanlegar vararafstöðvar og fleiri verður bætt við. 

„Allt í allt í þetta verkefni settum við 275 milljónir rúmlega. Þetta breytir öllu, sérstaklega í þessu óveðri upplifðu menn vantraust og óöryggi sem felst í því að þegar rafmagnið fer og fjarskiptin bregðast, þá upplifir þú auðvitað tvöfalt óöryggi. Annars vegar ertu í vanda en getur eiginlega heldur ekki leitað þér aðstoðar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra (B).

Þá hafa líka verið settar upp þrjátíu og tvær nýjar fastar vararafstöðvar og átta verður bætt við í sumar. 

Björgunarsveitir á Norðurlandi stóðu í ströngu í aðventustorminum 2019.

„Við vorum að störfum á snjóbílnum standslaust í 36 klukkutíma. Bæði að aðstoða RARIK og sækja fólk um sveitir,“ segir Hjálmar Björn Guðmundsson, formaður Blöndu, björgunarfélags Blönduóss.

Hverju finnst þér þetta breyta að fá svona færanlega rafstöð?

„Þetta skiptir náttúrulega bara stóru máli fyrir almannavarnir og í svona ástandi eins og var þarna í desember að geta haldið fjarskiptasambandi opnu fyrir þá sem eru á ferðinni og þurfa á aðstoð að halda,“ segir Hjálmar.

„Þetta er sem sagt færanleg rafstöð fimmtán kílówött. Hérna erum við að sjá þriggja sílendra díselmótor og svo rafal sem býr til rafmagn. Svona rafstöð getur séð um rekstur á miðlungs fjarskiptastað í tæpa 36 tíma ef allt er eðlilegt,“ segir Stefán Trausti Njálsson rafeindavirki hjá Neyðarlínunni.

„Ég held að þetta breyti öllu, ekki bara öryggisfjarskipti heldur fjarskipti almennings. Almenningur þarf að geta hringt inn ef óhapp ber að og við þurfum að geta boðað björgunarsveitir,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.