Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Með ljúfum dumbungsbrag

Mynd með færslu
 Mynd: Dagur Gunnarsson

Með ljúfum dumbungsbrag

19.02.2021 - 13:05

Höfundar

Þær Ragga Gísla og Steinunn Þorvaldsdóttir standa að plötunni Þorralögin. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Jólalög. En hvað með páskalög? Já, eða þorralög? Þessi tíð er okkur Frónbúum einkar hugstæð og því merkilegt að ekki sé neitt til af íslenskum lögum sem fjalla beint um þorrann. Þær Ragnhildur Gísladóttir og Steinunn Þorvaldsdóttir hafa nú gert bragarbót á þessu og nú streymir sex laga plata á tónlistarveitum, Þorralögin. Ragnhildur á lög en Steinunn texta en svo var það Halldór G. Pálsson, Fjallabróðir, sem sá um upptökur. Um flutning annast hljómsveitin Spraðabassar en hana skipa auk þeirra Ragnhildar og Halldórs, Bryndís Jakobsdóttir, Sverrir Bergmann, Tómas Jónsson og Magnús Magnússon.

Platan á sér tildrög í bókinni Velkominn þorri sem kom út árið 2010. Þar taka Ragnhildur og Steinunn saman ýmsan fróðleik um þorra og þorrahefðir og kynntu þá jafnframt tvö ný lög um þorrann, „Velkominn þorri“ og „Þorrinn er kominn“. Í kjölfarið sömdu þær tvö önnur lög, „Bóndadagshopp“ og „Þorragleðigleðigaman“ sem komu út á plötunni Þorralögin árið 2011, ásamt hinum tveimur. Árið 2017 bættust svo við lögin „Reynir að gera gott úr því“ og „Þorralitirnir“. Hér eru þau semsagt öll samankomin.
Þetta er náttúrulega frábær hugmynd og í raun fáránlegt að engum hafi dottið þetta í hug fyrr. Eða hvað? Manni finnst eins og jólalögin hafi bara orðið til, einhvern veginn, en hér þurfti greinilega aðgerðir. Og hvernig ber maður sig að? Og munu lögin ná sígildri stöðu í fyllingu tímans?

Fyrir það fyrsta má vel heyra höfundareinkenni Ragnhildar á lögunum. Þau eru vel samin og bera það með sér að hér er reynslubolti á ferð. En ekki bara að hún kunni sitt fag heldur hefur Ragnhildur alltaf haft mjög næmt eyra fyrir óvenjulegum en um leið þrælgrípandi melódíum. Í annan stað er passað upp á, og þetta þykir mér klókt, að lögin séu með svona dimmbrúnum dumbungsbrag. Ekkert svartnætti, nei, svona dökkleit hlýja eiginlega. Bítandi vetur, kaldur og miskunnarlaus, en um leið furðu þægilegur og umlykjandi. Þetta er undirstrikað með fyrsta laginu, „Velkominn Þorri“, sem hefur allt þetta til að bera. Það er reisn yfir því, höfðingslund eiginlega, og Ragnhildur og Dísa dóttir hennar bjóða þennan ógurlega gest velkominn, lokka hann til sín eins og sírenur væru. „Bóndadagshopp“ er grallaralegra og svona prakkarablær yfir. Vísar í þann sið að húsbóndi færi hoppandi í kringum bæinn, fáklæddur að neðan, á fyrsta degi þorrans. Sverrir Bergmann gerir vel í söngnum og lagið vísar nett í íslensku þjóðlögin. Önnur lög eru í sama gæðaflokki, haganlega samin hvert sem eitt. Skríða ýmist áfram hæglætislega eða fara á gáskafullt hlemmiskeið. Og mollið aldrei langt undan.

Ragnhildur og hennar fólk nær þannig að fanga anda þorrans, bæði árstíðarinnar og þeirra siðvenja sem í kringum hana er, glettilega vel. Bæði textalega og ekki síst með tónrænum hætti. Vel gert. Æ, réttu mér nú hákarlinn. Vertu ekki að þessu!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Ragga Gísla og Steinunn Þorvaldsdóttir - Þorralögin