Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hertar aðgerðir á landamærum frá og með deginum í dag

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Strangari skilyrði fyrir komu fólks til Íslands tóku gildi á miðnætti. Öllum sem hingað koma er nú skylt að framvísa neikvæðu COVID-19 prófi, sem ekki má vera eldra en þriggja sólarhringa. Að auki er þeim skylt að undirgangast skimun við komuna til landsins, aðra skimun að liðnum fimm dögum, sem verja skal í sóttkví.

Ísland er fjórtánda Evrópuríkið sem skyldar alla komufarþega til að framvísa vottorði um neikvætt COVID-19 próf. Íslendingum sem framvísa ekki vottorði við komuna verður ekki meinuð landganga, en þeir geta átt von á sekt.

Nýja reglugerðin um aðgerðir á landamærunum kveður einnig á um að hægt sé að skikka farþega til að verja sóttkvíardögunum í farsóttarhúsi. Það á meðal annars við um farþega sem ekki geta gefið upp dvaldarstað og þá sem greinast með eitt þeirra þriggja afbrigða kórónaveirunnar sem talin eru smitnæmari en önnur.

Þá er lögð aukin áhersla á að koma í veg fyrir að fólk sæki farþega á flugvöllinn og útsetji sjálft sig og aðra þar með fyrir smithættu.