Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fjórðungur farþega ekki með PCR-vottorð

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Fyrstu farþegarnir sem þurftu að framvísa vottorði um smitleysi komu frá Boston í morgun. Seinlegt var að fara yfir vottorðin. Nærri fjórðungur farþega var ekki með vottorð. Ekki verður sektað fyrr en á mánudag í fyrsta lagi.

Tafsamt að fara yfir vottorðin

Þrjátíu og sex farþegar komu með fyrstu vélinni til landsins eftir að ný reglugerð um sóttvarnir á landamærum tók gildi á miðnætti. Auk tvöfaldrar sýnatöku með sóttkví á milli þurfa farþegar nú að framvísa svonefndu PCR-vottorði um að þeir séu ekki smitaðir. Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segir að vel hafi gengið í morgun:

„Það er vissulega tafsamt að skoða þessi vottorð og taka við þeim þ.a. afgreiðslutími farþega lengist talsvert. Og við vorum vel yfir hálftíma að skoða þetta og afgreiða þetta.“

Voru farþegarnir meðvitaðir um að þeir þyrftu að koma með svona vottorð að heiman?

„Já, þeir voru það en bara tímans vegna voru þeir sem voru ekki með þessi tilskildu vottorð þeir hreinlega náðu því ekki.“

Ekki sektað strax

Sigurgeir segir að vélin hafi lagt af stað frá Boston síðdegis í gær að staðartíma og þá hafði reglugerðin ekki enn öðlast gildi. Hann segir að þeim sem hafi ekki verið með vottorð hafi verið hleypt inn í landið. 

„Við munum ekki beita sektum fyrr en í fyrsta lagi á mánudag.“

Hvað voru margir sem að voru ekki með vottorð?

„Það voru níu manns af þessum 36 sem að voru ekki með tilskilin vottorð.“ 

Von á 340 farþegum

Sigurgeir segir að þessir farþegar hafi vitað að þeir ættu að framvísa vottorði en ekki náð því af því að fyrirvarinn hafi verið skammur enda sé flókið sums staðar að verða sér úti um PCR-vottorð. Lögregla og starfsmenn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem taka sýnin í Leifsstöð, hjálpast að við að fara yfir vottorðin sem koma úr mörgum áttum. Von er á vél frá Kaupmannahöfn eftir hádegi með 120 farþegum. Rétt eftir miðnætti kemur vél frá Varsjá með 220 farþegum. 

Byrjað á bólusetja 80 til 89 ára fyrstu vikuna í mars

Í dag er verið að bólusetja starfsfólk á hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu. Nú eru færri frá hverju heimili bólusettir í einu svo að margir á hverju heimili verði ekki veikir í einu. Sumir verða slappir daginn eftir sprautu. Í næstu viku er stefnt að því að klára að bólusetja alla níutíu ára og eldri segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í vikunni eftir verður byrjað að bólusetja fólk á aldrinum 80 til 89 ára.