Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Finnskt veiruafbrigði mögulega torgreinanlegra en önnur

19.02.2021 - 05:37
Mynd með færslu
 Mynd: Tmaximumge - Wikipedia
Grunur hefur vaknað um að í Finnlandi sé komið fram áður óþekkt afbrigði kórónaveirunnar sem veldur COVID-19, sem líklega er erfiðara að uppgötva en önnur með þeim skimunaraðferðum sem helst hefur verið beitt.

Vísindamenn í Finnlandi uppgötvuðu í vikunni það sem þeir telja áður óþekkt afbrigði veirunnar. Afbrigðið fannst við skimun í suðurhluta Finnlands. Enn er þó aðeins um eitt, einangrað tilfelli að ræða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Vita-rannsóknarstofunnar og líftæknistofnunar Helsinkiháskóla.

Deilir lykileinkennum með suður-afríska afbrigðinu

Finnska afbrigðið, sem kallast Fin-796H, er frábrugðið hvorutveggja breska og brasilíska afbrigðinu, segir í tilkynningunni, en deilir ákveðnum lykileinkennum suður-afríska afbrigðisins.

Einnig segir að það sé að líkindum torgreinanlegra en önnur í svonefndum PCR-prófum, sem notuð eru við skimun víðast hvar.

Þúsundir afbrigða á kreiki

Taneli Puumalainen, yfirlæknir við Heilbrigðisstofnun Finnlands, hvetur fólk til að halda ró sinni. „Það eru þúsundir afbrigða í umferð og það finnast æ fleiri eftir því sem fleiri sýni eru raðgreind,“ segir hann í viðtali við Hufvudstadsbladet. Ekkert bendi til þess enn sem komið er, að þetta tiltekna afbrigði sé smitnæmara en önnur.