Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Færumst sífellt nær því að senda fólk til Mars

19.02.2021 - 21:23
Erlent · geimferðir · Geimurinn · NASA
Mynd: EPA-EFE / NASA/JPL-Caltech
Við færumst sífellt nær því að geta sent fólk til Mars, segir Ari Kristinn Jónsson rektor HR sem áður starfaði hjá Nasa. Geimjeppinn Þrautseigja sé langöflugasta tækið sem mannkynið hafi nokkurn tíma sent þangað.

Auðsýnilega var starfsfólki Nasa létt þegar lendingin tókst, enda má ekkert út af bera þegar lenda á geimfari á annarri plánetu. Margra ára vinna fjölda fólks stendur og fellur með þessu augnabliki. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR starfaði hjá NASA í 10 ár. „Það sem fólk sér kannski ekki þegar það fylgist með fólkinu á stjórnstaðnum er margra ára vinna hjá þeim öllum. Að undirbúa ferðina, smíða geimfarið, hanna alla ferla, þróa allan hugbúnað. Og allt þetta, öll þessi vinna er undir þegar geimfarið er að fara í gegnum lofthjúpinn og klára að lenda á Mars,“ segir hann. 

Ari Kristinn starfaði meðal annars við undirbúning fyrri Mars-ferða. „Þetta er langöflugasta tækið sem við höfum nokkurn tímann sent til Mars og þetta auðvitað byggir á þeim tækjum sem við höfum sent á undan,“ segir hann. 

Hefur verið líf á Mars?

Geimjeppinn þrautseigja er því betur til þess fallinn að svara stórum spurningum. „Og það er kannski tvennt sem er efst þar, varðandi þennan jeppa. Annars vegar að við komumst miklu nær því að geta svarað spurningunni: Hefur verið líf á Mars? Eins og ýmislegt bendir til að það hafi verið.“

epa09024691 A handout photo made available by NASA shows a high-resolution still image part of a video taken by several cameras as NASA’s Perseverance rover touched down on Mars, on 18 February 2021 (issued 19 February 2021). A camera aboard the descent stage captured this shot. A key objective for Perseverance's mission on Mars is astrobiology, including the search for signs of ancient microbial life. The rover will characterize the planet's geology and past climate, pave the way for human exploration of the Red Planet, and be the first mission to collect and cache Martian rock and regolith.  EPA-EFE/NASA/JPL-Caltech HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - NASA/JPL-Caltech
Ljósmynd sem sýnir Þrautsegju lenda á Mars í gær.

Vonast er til að þrautseigja færi okkur nær því að senda mannfólk til Mars. Þótt ferðir þangað séu orðnar nokkuð margar þá er mönnuð geimferð mun flóknari. Ferðin sjálf tekur nefnilega sjö mánuði - aðra leið. „Það þarf að halda lífi í fólki alla þessa leið með súrefni, vatni, mat, eldsneyti og öllu, hita. Og síðan þegar komið er til Mars þá er afstaða plánetanna þannig að valkosturinn er að vera þarna í viku og koma svo til baka. Eða vera í eitt og hálft ár og síðan koma til baka.“

Því sé þetta spurning um að hafa hannað geimfar og alla tækni til þess að fólk geti farið í þetta langa og stranga ferðalag. „Þannig að þetta er stórt verkefni en við færumst alltaf nær því,“ segir Ari Kristinn. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV