Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Enginn banki á Blönduósi eftir að Arion lokar þar í maí

19.02.2021 - 11:44
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Arion banki ætlar að loka útibúi sínu á Blönduósi. Með því verða Blönduósbúar að fara á Sauðárkrók til að sækja sér þjónustu bankans.

Arion banki lokar á Blönduósi nú í maí og sameinast útibúi hans á Sauðárkróki, þangað sem fólk þarf nú að fara til að sækja þjónustu bankans. Að undanskildum einum hraðbanka verður þar með engin bankaþjónusta á Blönduósi, í fyrsta skipti í hundrað og þrjátíu ár. 

„Hér eru stórar ferðahelgar og hér er vaxandi, fjölgandi íbúar og vaxandi atvinnulíf á þessu svæði. Það þarf þjónustu fjármálastofnana þótt það þurfi ekki að vera fullmannað útibú eins og var áður með fjölda starfsmanna,“ segir Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri á Blönduósi.

Vildu fá hálfstafrænt útibú á Blönduós

Bankinn segir þetta lið í nýrri nálgun þar sem áhersla er lögð á stafrænar þjónustuleiðir og sérhæfða fjármálaráðgjöf. Blönduósbær og Arion banki ræddu um að koma upp hálfsjálfvirku útibúi, líkt og eru á Akureyri og í Kringlunni í Reykjavík, en lítið varð úr því. 

„Þetta hittir okkur mjög illa. Þótt við höfum skilning á því að bankar og aðrar stofnanir eru að tæknivæðast þá hefðum við viljað taka þátt í því og aðlaga að breyttu umhverfi.“

Á síðustu árum hefur Arion banki fækkað útibúum sínum á landsbyggðinni. Á síðasta ári lokaði útibú í Hveragerði og sameinaðist starfsemi bankans á Selfossi, þar áður lokaði Arion í Grundarfirði og sameinaðist útibúinu í Stykkishólmi. 

Skoða nú að færa viðskipti sín annað

Blönduósbær skoðar nú frekari viðbrögð við þessari ákvörðun Arion banka - þá sérstaklega með tilliti til framtíðarbankaviðskipta sveitarfélagsins. 

„Við munum skoða okkar gang eins og ég veit að bæði fyrirtæki og einstaklingar eru að gera með að færa viðskiptin eitthvað annað.“