Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Deildu hart á ákæruvaldið

19.02.2021 - 18:15
Hreiðar Már Sigurðsson og Magnús Guðmundsson deildu hart á Björn Þorvaldsson saksóknara í lok síðustu hrunréttarhaldanna, sem lauk í Landsrétti í dag. Þeir sögðu að ákæruvaldið hefði haldið mikilvægum gögnum leyndum fyrir sér og verjendum sínum lengi framan af. Þetta töldu þeir alvarlegt mál og báðu dómarana þrjá að taka það sérstaklega fyrir í dómsniðurstöðu sinni ef þeir væru sammála sér um það.

Hreiðar Már, Magnús og Sigurður Einarsson eru ákærðir vegna lánveitinga til aflandsfélaga í eigu vildarviðskiptavina Kaupþings skömmu fyrir hrun. Málið hefur velkst lengi í dómskerfinu. Héraðsdómur Reykjavíkur hefur tvívegis sýknað sakborninga og einu sinni vísað málinu frá. Hæstiréttur og Landsréttur hafa alltaf sent það aftur í hérað.

Þriggja daga aðalmeðferð lauk í Landsrétti í dag. Að loknum málflutningsræðum og andsvörum saksóknara og verjenda tóku tveir af þremur sakborningum til máls. 

Mikilvægt að tryggja aðgang að gögnum

Hreiðar Már sagði að eitt atriði brynni á sér. Hann sagði að ákæruvaldið hefði haldið gögnum frá sér, öðrum sakborningum og verjendum þar til rétt áður en réttarhöld hófust í Héraðsdómi Reykjavíkur 2015. Það væru gögn frá Lúxemborg sem hefðu verið skráð og þýdd á íslensku við rannsóknina en ekki lögð fram. Þarna hefðu þeir uppgötvað atriði sem nýttust þeim við málsvörn sína og staðfestu atriði sem þeir hefðu áður sagt en ekki haft gögn um. Þetta hefði gerst þegar sakborningar fengu að ferðast úr fangelsi til að fara í gegnum gögn hjá embættinu.

Hreiðar Már sagði gríðarlega mikilvægt að dómarar tækju það fram í dómsniðustöðum sínum ef þeir væru sammála sér um að þetta gengi ekki. Þetta vildi hann að yrði gert svo embætti gæti ekki setið á gögnum í framtíðinni.

Mynd með færslu
 Mynd: Sveinn H. Guðmarsson - RÚV
Kaupþing í Lúxemborg fyrir hrun.

Magnús tók undir með Hreiðari um aðgang að gögnum. Hann sagði að saksóknari væri mikill keppnismaður og stundum sæist hann kannski ekki fyrir. „Líklega hefði hann verið farinn út af með tæknivillu ef hann væri enn að spila körfubolta eins og í gamla daga.“ Magnús sagði eitt að meta gögn þannig að þeirra væri ekki þörf en lýstri megnri óánægju með að saksóknari hefði beitt sér gegn framlagningu þeirra gagna fyrir dómi sem sakborningar töldu styrkja mál sitt. 

Dómari spurði Sigurð í lokin hvort hann hefði eitthvað að segja: „Nei, ég hef engan áhuga á því,“ svaraði hann.

Mynd með færslu
Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson mæta í Landsrétt. Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson.

Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar, sagði að Landsréttur gæti ekki sakfellt Magnús hvort sem dómstóllinn sakfelldi eða sýknaði hina sakborningana. Hann er ákærður fyrir hlutdeild í brotum þeirra. Kristín sagði að þar sem héraðsdómur hefði ekki metið hugsanleg brot Magnúsar eftir að hafa sýknað Sigurð og Hreiðar væri ekki hægt að sakfella hann, aðeins sýkna eða vísa málinu aftur í hérað.

Magnús var ekki gerandi í lánveitingum og hafði fyrst og fremst það hlutverk að vera tengiliður við viðskiptavini bankans í Lúxemborg og Deutsche Bank vegna viðskipta með skuldabréf, sagði Kristín. Hún sagði að Magnús hefði ekki gefið fyrirmæli um greiðslur eða lánveitingar, eins og ákæruvaldið hélt fram, heldur aðeins borið skilaboð á milli þegar þýski bankinn kom með veðköll. Hún krafðist einnig frávísunar málsins þar sem ranglega hefði verið staðið að áfrýjun þess. 

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Kaupþing fyrir hrun.

Snýst bara um lánin 

Saksóknari og verjendur Sigurðar og Hreiðars fluttu málflutningsræður sínar í gær og í morgun. Í lok réttarhalda gafst þeim færi á andsvörum.

Björn Þorvaldsson saksóknari sagði málið aðeins snúast um peningamarkaðslán sem veitt hefðu verið til skamms tíma án trygginga. Hann sagði að engu skipti í hvað þau lán hefðu verið notuð. Það varð til þess að Heiðar og Magnús litu hvor á annan og fór ekki á milli mála að þeir voru ósammála saksóknaranum. Björn sagði að lánin væru refsiverð og það hefði verið sýnt fram á í fyrri dómsmálum.

Að lokum tók Björn undir með öðrum um að málið hefði tekið of langan tíma. Hann sagði ákæruvaldið þakka verjendum og sakborningum fyrir samveruna síðasta áratuginn og óskaði þeim farsældar.

Milliliðir að kröfu Deutsche Bank

Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más, sagði að eina ástæðan fyrir því að stórir viðskiptavinir Kaupþings voru með í viðskiptunum væri sú að Deutsche Bank gerði kröfu um slíkt. Bankinn kom með tillögu um skuldabréfaviðskipti til að lækka skuldatryggingaálag en vildi að einhver annar en Kaupþing keypti bréfin.

Hörður sagði viðskiptin hagstæð fyrir bankann þar sem þau myndu lækka skuldatryggingaálag og tryggja honum þóknanatekjur „Hugsunin að baki var sú að hagnaður sem hlytist af þessum viðskiptum myndi renna beint til greiðslu krafna sem bankinn ætti á þá,“ sagði Hörður og kvað engar annarlegar hvatir hafa legið að baki viðskiptunum.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar.

Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar, sagði að viðskiptin sem ráðist var í til að hafa áhrif á skuldatryggingaálag hafi verið heilbrigð viðskipti og skynsamleg aðgerð við aðstæður sem hefðu kallað á viðbrögð. Hann spurði hvort það væri refsivert að aðrir högnuðust líka á viðskiptum sem væru sett upp út frá hagsmunum bankans og til þess gerð að bankinn hagnaðist. Gestur sagði að viðskiptin væru í grundvallaratriðum í þágu bankans.

Málið var dómtekið síðdegis og kveða dómarar upp dóm sinn á næstu vikum.