Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Af hverju má ekki dreifa fréttum á Facebook í Ástralíu?

19.02.2021 - 14:00
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Í vikunni bárust fréttir frá Ástralíu um að þar hefði Facebook bannað alfarið dreifingu á fréttum ástralskra fjölmiðla. Á sama tíma var skrúfað fyrir dreifingu á fréttum frá áströlskum fjölmiðlum á Facebook annars staðar í heiminum og þar er Ísland ekki undanskilið. Þið getið prófað sjálf.

Tilraunir Facebook til að hafa áhrif á lagasetningu í Ástralíu voru örskýrðar í Hádeginu á Rás 1. Hlustaðu á örskýringuna í spilaranum hér fyrir ofan.

En hvað hefur Facebook á móti fjölmiðlum í Ástralíu? Og gæti svipað átt sér stað annars staðar? Jafnvel í Evrópu? Við skulum skoða málið.

Ástæðan fyrir frekjukasti Facebook er nýtt fjölmiðlafrumvarp í Ástralíu. Verði frumvarpið að lögum þurfa netrisar á borð við Google og Facebook að greiða fjölmiðlum háar fjárhæðir fyrir að dreifa fréttum og fréttatengdu efni. 

Google mótmælti tillögunum í fyrstu en hefur nú samið við ástralska fjölmiðla um greiðslur sem hlaupa á tugum milljóna ástralíudala. Facebook haggast hins vegar ekki og segir í afdráttarlausri tilkynningu að tillögurnar sýni misskilning á sambandi Facebook og fjölmiðla og það sé verið að refsa samfélagsmiðlinum fyrir að dreifa efni sem hann bað ekki um.

Af hverju ættu Facebook og Google samt að borga fyrir að dreifa efni fjölmiðla? Eru ekki allir bara vinir?

Ekki alveg. Ævintýralegur uppgangur Google og Facebook hefur grafið undan fjölmiðlum um allan heim. Á meðan vefrisarnir mala gull hefur tekjugrundvöllur fjölmiðla skroppið saman og flestir eiga þeir í erfiðu sambandi við samfélagsmiðla: Dreifing frétta og annars fjölmiðlaefnis fer að miklu leyti fram á samfélagsmiðlum. Á sama tíma selja Facebook og Google ódýrari auglýsingar en fjölmiðlar ásamt því að veita auglýsendum betri þjónustu en fjölmiðlar geta boðið upp á. 

Þannig hafa vefrisarnir náð yfirburðastöðu í auglýsingasölu á internetinu, meðal annars með hjálp fjölmiðla og einmitt þar verður sambandið mjög sársaukafullt; auglýsingatekjur eru nefnilega lífæð flestra fjölmiðla og þær hafa af stórum hluta færst frá fjölmiðlum til netrisanna.

En erum við nokkuð að pæla í þessu hérna hinum megin á hnettinum? Ætlar Evrópa eitthvað að hnykla vöðvana gagnvart netrisunum?

Áströlsku fjölmiðlalögin verða þau fyrstu sinnar tegundar í heiminum, verði þau samþykkt en víða um heim hafa ríki þrýst með ýmsum hætti á Facebook, Google og fleiri netrisa um að deila tekjum sínum með fjölmiðlum.

Í Frakklandi varð Google að semja við fjölmiðla um greiðslur eftir að lög Evrópusambandsins um höfundarrétt voru tekin upp þar í landi. Búast má við að lögin taki gildi í fleiri löndum ESB á næstu misserum. Þá var tilkynnt í fyrra að nokkrir bandarískir fjölmiðlar hefðu náð samkomulagi við Facebook um greiðslur fyrir dreifingu efnis.

Og hvað með Ísland?

Góð spurning. Í samantekt Hagstofunnar frá því í janúar kemur fram að 41 prósent auglýsingatekna á internetinu á Íslandi árið 2019 hafi runnið úr landi — af þeim fór stór hluti til Facebook og Google.

Stjórnvöld á Íslandi samþykktu í fyrra að styrkja einkarekna fjölmiðla í gegnum ríkissjóð og þó málefni netrisanna hafi komið upp í umræðum á Alþingi, þá hafa engar tillögur um þá verið lagðar fram.