Vinsælasta hlaðvarp landsins eignast litla systur

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage

Vinsælasta hlaðvarp landsins eignast litla systur

18.02.2021 - 11:14

Höfundar

Þátturinn Í ljósi sögunnar, í umsjón Veru Illugadóttur, hefur verið eitt vinsælasta hlaðvarp landsins um árabil. Nú hefur þátturinn eignast systurþátt þar sem ljósinu er beint að krökkum sem hafa með einum eða öðrum hætti skráð nafn sitt á spjöld sögunnar. Þátturinn hefur hlotið nafnið Í ljósi krakkasögunnar.

Vera segist vera spennt fyrir þáttunum og hlakka til að heyra einhvern annan spreyta sig á í-ljósi-sögunnar-þemanu, eins og hún orðar það. Ingibjörg Fríða Helgadóttir dagskrárgerðarkona á KrakkaRÚV sér um þættina. Vera bætir við að upphaflega hafi markmiðið með þáttunum verið að miðla sögunni til sem flestra og á öllum aldri svo þetta sé frábær viðbót við þættina hennar.  

„Krakkar hafa auðvitað haft áhrif á söguna rétt eins og fullorðnir, þó svo að það sé kannski ekki eins mikið fjallað um það og afrek og gjörðir þeirra fullorðnu. Til dæmis má nefna krakkana sem fjallað verður um í þáttunum,“ segir Vera. Þar má meðal annars nefna Ruby Bridges, sex ára stelpu sem sýndi mikið hugrekki þegar hún var fyrsta svarta barnið í Suðurríkjum Bandaríkjanna í skóla sem hafði áður bara verið fyrir hvít börn. Í öðrum þáttum er til dæmis fjallað um Pu Yi, tveggja ára ofdekraðan keisara í Kína, undrabarnið Mozart og hina raunverulegu Pocahontas. Þá er reynt að finna út hvert sé þekktasta barn Íslandssögunnar fyrr og síðar. Sérstakur þáttur verður svo tileinkaður aktívistunum og baráttubörnunum Malölu Yousafzai, Gretu Thunberg, Anton Abele og Iqbal Mashi.  

Þættirnir verða sex talsins og þær Vera og Ingibjörg fóru saman yfir hvaða sögur ætti að segja í þessari þáttaröð, en hvaða þátt er Vera sjálf spenntust fyrir að heyra?  

„Ég er spenntust fyrir þættinum um Ruby Bridges sem er merkileg manneskja sem hefur verið nokkuð í umræðunni í Bandaríkjunum upp á síðkastið og því vert að halda sögu hennar á lofti. Sömuleiðis þættinum um baráttukrakkana því þeir sýna að krakkar geta haft feykimikil áhrif á söguna.“ 

Þátturinn um Ruby Bridges er einmitt fyrsti þátturinn í þáttaröðinni Í ljósi krakkasögunnar og það er hægt að hlusta á hann hér.

Ingibjörg Fríða segir að það sé mikilvægt að gefa augunum frí frá skjánum af og til og leyfa huganum að fara með okkur í ferðalag og góð leið til þess sé að hlusta á hlaðvarp. „Í ljósi krakkasögunnar er tilvalinn þáttur fyrir alla fjölskylduna að hlusta á saman því það geta myndast svo skemmtilegar umræður á eftir um alls konar mikilvæga hluti, til dæmis rasisma,“ segir Ingibjörg Fríða. „Nú ef þið viljið síðan hlusta á eitthvað léttara er alltaf hægt að smella á einn góðan þátt af Hljómboxinu og spreyta sig þar,„ bætir hún við og hlær en Hljómboxið er vinsæl þáttaröð úr smiðju KrakkaRÚV þar sem fjölskyldur keppa í hlustun. 

Mikið framboð af útvarpsefni fyrir alla fjölskylduna  

KrakkaRÚV framleiðir fjóra útvarpsþætti á viku sem frumfluttir eru á Rás 1 mánudaga til fimmtudaga klukkan 18:30. Við mælum með hlustun í bílnum, fyrir svefninn, í baði, úti að ganga, hlaupa og hjóla eða elda matinn. Ekki hafa áhyggjur þótt þið missið af þeim í útvarpinu því þeir eru aðgengilegir á krakkaruv.is, í KrakkaRÚV-appinu og á öllum helstu hlaðvarpsveitum, meðal annars Spotify.