Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vilja byggja grænni framtíð en vantar upplýsingar

Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Nýr samstarfsvettvangur stjórnvalda og fyrirtækja ætlar að kortleggja kolefnisspor byggingariðnaðar á Íslandi og setja tímasett markmið um samdrátt í losun.  Fátt er vitað um sporið í dag, annað en að það er stórt. 

Byggingageirinn ábyrgur fyrir stórum hluta losunar

Í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum er lagt til að spor byggingageirans verði metið sérstaklega og unnið markvisst að því að draga úr losun frá honum. Þóra Margrét Þorgeirsdóttir, sérfræðingur hjá húsnæðis- og mannvirkjastofnun, leiðir nýjan samstarfsvettvang, sem kallast Byggjum grænni framtíð. Byggingageirinn er talinn ábyrgur fyrir allt að 40% losunar á heimsvísu. „Þá er verið að horfa á allan líftíma mannvirkis, allt frá framleiðslu byggingarefnis til loka líftíma þess. Þessar tölur hér á Íslandi eru bara ekki til. Það eina sem er notað í losunarbókhaldi Íslands sem er merkt mannvirkjageiranum er losun vegna jarðefnaeldsneytis á framkvæmdastað annars vegar og losun vegna framleiðslu á steinull hins vegar.“

Upplýsingar vantar um losun vegna framleiðslu sements og krossviðar erlendis, svo dæmi séu nefnd. Hér er losun mannvirkja sennilega töluvert minni en í flestum nágrannalöndum, þar sem hús hér eru hituð með endurnýjanlegri orku. 

Geta lítið gert fyrr en staðan liggur fyrir

Til stendur að afla gagna og gera vistferilsgreiningu, skoða losun á öllum líftíma mannvirkja og setja í kjölfarið tímasett markmið um samdrátt í losun fyrir árið 2030. Sigríður Ósk Bjarnadóttir, byggingarverkfræðingur hjá VSÓ stýrir vinnunni við vistferilsgreininguna. „Það er alveg ofboðslega mikilvægt að hafa eitthvað viðmið, við vitum að byggingariðnaðurinn er ofboðslega stór hluti af kolefnislosun á heimsvísu sem þýðir að hann hlýtur að vera alveg stór hluti af kolefnislosun Íslans. VIð erum með alls konar markmið, kolefnishlutleysi fyrir 2040 og þurfum þá að fara að gera eitthvað en til þess að geta gert eitthvað þá þurfum við að vita hvar við erum núna,“ sagði Sigríður á fundi um nýja samstarfsvettvanginn Byggjum grænni framtíð í morgun.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Myndin sýnir áætlaða hlutdeild steypuframleiðslu í heimslosun annars vegar og flugsamgangna hins vegar.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV