Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Verra en versta niðurstaðan

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Gerðardómur fellst ekki á kröfu flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni um að kjarasamningur þeirra við ríkið verði tengdur aðalsamningi þeirra við Icelandair. Það hafi í raun verið bannað samkvæmt lögum frá 2006. Flugvirkjar eru ekki sáttir og segja að niðurstaðan sé verri en versta hugsanlega niðurstaðan.

Verkfall flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni stóð yfir í þrjár vikur. Hófst 6. nóvember og lauk með lagasetningu 27. nóvember. Það hafði fljótlega áhrif á þyrlu- og flugvélakost Gæslunnar. Samningaviðræður gengu stirðlega. Þær snerust kannski ekki fyrst og fremst um launahækkanir heldur um hvort kjarasamningur flugvirkja ætti áfram að tengjast kjarasamningi félagsins við Icelandair. Þannig hafði það verið árum saman. Ríkið vildi klippa á þennan streng og gera sjálfstæðan samning við flugvirkja eins og aðra ríkisstarfsmenn. Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður Flugvirkjafélagsins, útskýrði hvers vegna þeir vildu þessa tengingu.

„Aðalkjarasamningur Flugvirkjafélagsins er sniðinn að störfum flugvirkja og hann hefur þróast í 50 ár með störfum flugvirkja. Samningurinn sem liggur á borðinu af hálfu ríkisins er ekki slíkur samningur. Hann byggist ekki á sömu ákvæðum og greinum sem við þurfum í okkar umhverfi.“ 

Neyðarástand

Í lok nóvember var svo komið að vegna verkfallsins var hvorki þyrla né flugvél til taks hjá Landhelgisgæslunni. Samdægurs, 27. nóvember voru lög sett á deiluna og verkfallið stöðvað. Gerðardómi var falið að finna lausn á deilunni

„Virðulegi forseti. Sáttatilraunir í málinu hafa engan árangur borið og engin lausn er í sjónmáli eftir að flugvirkjar höfnuðu sáttatillögu ríkissáttasemjara í gær. Brýnt er að bregðast við til að binda enda á það neyðarástand sem upp er komið. Kjaradeilan varðar, sem fyrr segir, almannahagsmuni og almannaöryggi.“

Sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, á Alþingi þegar lögin voru sett á deiluna.

Óheimilt frá 2006

Gerðardómur hefur nú komist að niðurstöðu. Verkefni hans var að skera úr um hvor leiðin yrði farin. Að halda tengingunni við aðalsamning flugvirkja eða að gera við þá sjálfstæðan kjarasamning eins og ríkið vildi. Ákvæði hefur verið í kjarasamningum flugvirkja um að launahækkanir fari eftir aðalsamningi þeirra eða samningi flugvirkja við Icelandair. Ýmis önnur hlunnindi og greiðslur hafa verið bundin aðalsamningnum. Niðurstaða gerðardóms er að klippa á þetta samband. Í raun hafi verið óheimilt að semja á þessum nótum. Það hafi hreinlega verið bannað samkvæmt lögum um Landhelgisgæsluna frá árinu 2006. Þá voru greinar sem heimiluðu þessa tengingu felldar niður. Í greinargerð með frumvarpinu segir orðrétt: 

Er því lagt til að þessar greinar falli brott, þannig að í framtíðinni verði samið við viðkomandi stéttarfélög á grundvelli laga nr. 80/1938 eins og önnur stéttarfélög sem þar eiga undir, án beintengingar við kjarasamninga á hinum almenna markaði. 

Lögin frá 1938 eru lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

Gerðardómur leggur því fram heildstæðan kjarasamning um kaup og kjör flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni.

                              Úrskurður gerðardóms

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Sverrir Jónsson

Tekur undir sjónarmið ríkisins

En hver eru viðbrögð Sverris Jónssonar, formanns samninganefndar ríkisins, við úrskurði gerðardóms.

„Í stuttu máli tekur gerðardómur undir sjónarmið ríkisins og þau tilboð sem við lögðum fram. Það er auðvitað leitt að málið hafi farið í þennan farveg. Við hefðum frekar kosið að ljúka því með samningi. En í stuttu máli þá tekur gerðardómur undir öll þessi sjónarmið. Hann lagði mikla vinnu í málið og skoðaði það frá öllum hliðum. Þetta er alveg ásættanleg niðurstaða, að ég tel, fyrir báða aðila. Flugvirkjar fá bara fína niðurstöðu og í sjálfu sér betri niðurstöðu í launahækkunum en þeir sjálfir fóru fram á. Og til lengri tíma er ríkið komið með samningsmódel sem hentar aðstæðum og rekstri Landhelgisgæslunnar en ekki fyrirtæki á einkamarkaði,“ segir Sverrir.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Guðmundur Úlfar Jónsson

Versta niðurstaðan

Guðmundur Úlfar Jónsson formaður Flugvirkjafélags Íslands er ekki sáttur.

„Nei, þetta er verra en versta hugsanlega niðurstaða. Við áttum ekki von á því að við yrðum að gangast við alveg glænýjum samningi og tengingalausum samningi í þokkabót.“

En finnst Guðmundi að flugvirkjar séu að tapa á þessari niðurstöðu?

„Við töpum ákveðnum köflum úr samningnum sem lúta að flugvirkjastörfum. Þar að auki er búið að eiga við álagsgreiðslur og færa upp reynslutíma til þess að menn geti fengið álag eftir einhvern tíma í starfi og verða þar af leiðandi af tugum þúsunda í launum, “ segir Guðmundur. Hann er ekki sammála því að tengingin við aðalsamninginn hafi verið bönnuð samkvæmt lögum. „Í lögunum 2006 er talað um að hún þurfi ekki að vera en það er ekkert sem bannar hana.“