Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Um 600 milljóna króna viðskipti með Bitcoin í janúar

18.02.2021 - 19:27
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Íslendingar versluðu með rafmyntina Bitcoin fyrir um 600 milljónir króna í síðasta mánuði samkvæmt úttekt Rafmyntaráðs. Framkvæmdastjóri ráðsins segir að eftirlit með rafmyntinni hafi aukist verulega á síðustu árum.

Gengi rafmyntarinnar Bitcoin fór í fyrsta skipti yfir fimmtíu þúsund dollara í vikunni. Miklar verðhækkanir sáust síðasta haust þegar fjárfestingasjóðir og fjármálafyrirtæki keyptu myntina í meiri mæli, „og svo má segja með síðustu bylgju að nú eru mjög stór fyrirtæki, sérstaklega í Bandaríkjunum en víðar líka, að setja fjármagn í þetta sem tengist ekki fjárfestingastarfsemi sem slíkri og það er byltingarkennt,“ segir Kjartan Ragnarsson, framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs Íslands.

Í síðustu viku keypti bandaríski rafbílaframleiðandinn Tesla andvirði eins komma hálfs milljarðs bandaríkjadollara í rafmyntinni. „Það er í rauninni að kaupa Bitcoin í þeim tilgangi einum að verja kaupmátt lausafjárins. Það eru engin fjárfestingasjónarmið eða spákaupmennsku sjónarmið þar að baki,“ segir Kjartan.

Hann segir að eftirlit með rafmyntinni hafi aukist verulega á síðustu árum en nú er hægt að kaupa Bitcoin í gegnum þrjú fyrirtæki hérlendis, sem eru öll með leyfi hjá Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands. Kjartan segir Íslendinga hafa verslað með Bitcoin fyrir um 600 milljónir króna í síðasta mánuði.

„Það er ljóst að umfangið er að aukast mjög verulega en auðvitað eru Íslendingar líka að kaupa á erlendum kauphöllum þar sem er erfiðara að hafa eftirlit um þetta,“ segir Kjartan.

Bitcoin eru einungis til á netinu og í takmörkuðu magni. Kjartan treystir sér þó ekki til að fullyrða að verðið hækki næstu 120 árin en segir Bitcoin framtíðina í peningamálum. „Nú eru aðeins um tæplega tvö prósent í heiminum sem eiga Bitcoin þannig að ég lít svo á að við séum mjög snemma í ferlinu. Ef ég hef rangt fyrir mér þá verður þetta allavega góð saga að segja einhvern tímann,“ segir hann.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV