
Þúsundir mótmæla handtöku rappara á Spáni
Fjölmennustu og hörðustu mótmælin í Barcelona
Mótmæli héldu áfram á miðvikdag og fram á kvöld og voru bæði fjölmennust og hörðust í Barcelona, þar sem þúsundir fóru um götur og mótmæltu þeirri árás á tjáningarfrelsið, sem dómurinn yfir rapparanum er sagður vera. Hasél er listamannsnafn hins 32 ára gamla Pau Rivadulla.
Hann var dæmdur í níu mánaða fangelsi fyrir að hafa farið niðrandi orðum um konungsfjölskylduna og ýmsar ríkisstofnanir, og fyrir að upphefja hryðjuverk. Hann átti að mæta til afplánunar á föstudag en lét ekki sjá sig, heldur lokaði sig inni í háskólanum í Lleida í Katalóníu. Á þriðjudag réðist lögreglan til atlögu og sótti hann inn í háskólann með valdi. „Það er fasistaríkið sem handtekur mig. Dauða yfir fasistaríkinu!“ hrópaði Hasél þegar hann var leiddur út úr háskólanum í lögreglufylgd.
Listamenn og Amnesty International fordæmda dóminn
Hundruð spænskra listamanna, með leikstjórann Pedro Almodóvar, leikarann Javier Bardem og söngvarann Joan Manuel Serrat í fylkingarbrjósti, hafa lýst stuðningi við Hasél og fordæmt dóminn yfir honum og árás yfirvalda á tjáningarfrelsið. Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa líka látið sig varða mál rapparans Pablos Hásél. Í yfirlýsingu frá samtökunum segir að fangelsun hans á grundvelli söngtexta og twitter-færslna sé óforsvaranleg.