Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Svifryk dró 160.000 til dauða í 5 stærstu borgum heims

18.02.2021 - 04:49
epa08810678 Indian people commute as the city is engulfed in heavy smog, at Rajpath in New Delhi, India, 10 November 2020. According to doctors, the extreme pollution in the city could aggravate the ongoing COVID-19 coronavirus situation in the city. Also, the National Green Tribunal (NGT) imposed a total ban on sale or use of all kinds of firecrackers in the National Capital Region (NCR) up to 30 November for the upcoming Diwali festival.  EPA-EFE/RAJAT GUPTA
Loftgæði eru óvíða minni en í Nýju-Delí, sem æ ofan í æ hefur mælst með mestu loftmengun sem fyrirfinnst á byggðu bóli. Þessi mynd er tekin 10. nóvember 2020. Mynd: epa
Rekja má um 160.000 ótímabær dauðsföll í fimm fjölmennustu borgum heims árið 2020 til loftmengunar. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem unnin var fyrir Suðausturasíudeild náttúrverndarsamtakanna Greenpeace og kynnt var í morgun. Verst var ástandið í fjölmennustu höfuðborg heims, Nýju Dehli á Indlandi. Þar er áætlað að um 54.000 manns hafi dáið af völdum svifryksmengunar þrátt fyrir að mjög hafi dregið úr mengun um hríð, vegna útgöngu- og ferðabanns þegar COVID-19 geisaði þar hvað heitast.

Næst-verst var ástandið í Tókíó, þar sem svifryksmengun er talin helsti sökudólgurinn í um 40.000 ótímabærum dauðsföllum á síðasta ári. Afgangurinn, um 66.000 ótímabær dauðsföll, dreifast á Sjanghaí, Sao Paulo og Mexíkóborg, samkvæmt rannsókninni, sem miðaði að því að kanna áhrif af fínu svifryki, PM2,5 (undir 2,5 míkrómetrum að stærð) á heilsu fólks.

Fínt svifryk myndast einkum við bruna jarðefnaeldsneytis og á vef Umhverfisstofnunar kemur fram að það myndast nær eingöngu af mannavöldum, en grófara svifryk (2,5 - 10 míkrómetrar) er að mestu náttúrulegt.

Borgum fyrir notkun jarðefnaeldsneytis með heilsunni

„Þegar ríkisstjórnir taka kol, olíu og gas fram yfir hreina orkugjafa, þá er það heilsa okkar sem geldur fyrir það,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Avinash Chanchal hjá Indlandsdeild Greenpeace. Fínt svifryk, PM2,5, er talið hættulegra heilsu fólks en annað svifryk. Örsmáar agnirnar (2,5 míkrómetrar = 0,0025 millimetrar) skaða hjarta og lungu og auka hættuna á alvarlegum asmaköstum.

Tillit tekið til áhrifa COVID-19

Við útreikningana var tekið fullt tillit til áhrifa sóttvarnaaðgerða vegna COVID-19 á svifryksmengun í fyrra. Sem dæmi um þau má nefna að í Nýju-Delí  andaði fólk að sér hreinu lofti í fyrsta skipti í áratugi vegna útgöngu- og ferðabanns, sem lamaði nánast alla umferð og dró stórlega úr allri iðnaðarframleiðslu á meðan það stóð.

Hvatt til fjárfestinga í hreinni orku

Í skýrslu Greenpeace eru ríkisstjórnir heims hvattar til að gera fjárfestingu í endurnýjanlegum orkugjöfum að lykilatriði í öllum sínum áætlunum um uppbyggingu hagkerfisins þegar COVID-kreppunni linnir.

„Til að hreinsa andrúmsloftið almennilega verða ríkisstjórnir að hætta að byggja ný kolaorkuver, leggja niður þau kolaorkuver sem eru í rekstri og fjárfesta í framleiðslu á hreinni orku, svo sem vind- og sólarorku,“ hefur AFP-fréttastofan eftir Aidan Farrow, sérfræðingi Greenpeace í loftmengun.