Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Slasaður maður var fluttur suður með þyrlu frá Bíldudal

18.02.2021 - 10:30
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Átök áttu sér stað í íbúðarhúsi á Bíldudal á sunnudag. Þegar lögreglu bar þar að garði var maður þar með áverka og skerta meðvitund. Hann var fluttur suður til Reykjavíkur með þyrlu Landhelgisgæslunnar en reyndist svo ekki með alvarlega áverka.

Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum. Maðurinn sem réðist á þann slasaða var færður í fangageymslu á Patreksfirði en var sleppt á mánudag eftir yfirheyrslu. Síðar sama dag var lögregla aftur kölluð að sama húsi á Bíldudal. Þá hafði sami maður ógnað tveimur öðrum með hnífi. Lögregla yfirbugaði hann og færði aftur í fangaklefa á Patreksfirði. 

Kona, sem hafði veist að lögreglu og reynt að hindra handtöku mannsins var líka handtekin. Þau sátu bæði fangageymslu yfir nótt og var sleppt daginn eftir að yfirheyrslu lokinni. 

Mál fólksins er til rannsóknar hjá Lögreglunni á Vestfjörðum.