
Skerðingar brot á stjórnarskrá og mannréttindasáttmála
Í málinu er þess krafist að viðurkennt verði að Tryggingastofnun ríkisins hafi verið óheimilt að skerða ellilífeyri fólksins, samkvæmt lögum um almannatryggingar, og heimilisuppbót, samkvæmt lögum um félagslega aðstoð vegna greiðslna sem þau nutu út skyldubundnum atvinnutengdum lifeyrissjóðum.
Skerðingarnar nemi 56,9% af greiðslum umfram 25 þúsund krónur á mánuði og uppfylli ekki kröfur um lögmæti, réttmæti og meðalhóf. Greiðslurnar séu enda grundvöllur framfærslu eftirlaunamannsins.
Grái herinn telur skerðingar greiðslnanna brjóta gegn 72. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir að eignarrétturinn sé friðhelgur. „Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“
Jafnframt brjóti skerðingar gegn 1. grein fyrsta viðauka mannréttindasáttmála Evrópu frá 1952 um friðhelgi eignaréttar en íslenska stjórnarskrárákvæðið sem bætt var við árið 1995 er nánast samhljóða.
Einnig er vísað til nokkurra dóma Hæstaréttar, Landsréttar og yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Málshöfðunarsjóður Gráa hersins tryggir fjármagn til málssóknarinnar, en fjölmörg félög eldra fólks um land allt hafa sömuleiðis lagt málinu lið.
Þá hefur almenningur og verkalýðsfélög stutt sjóðinn, einkum hafi VR lagt ríkulega til málsins. Helgi Pétursson talsmaður Gráa hersins, segir í samtali við fréttastofu að málið verði tekið fyrir í mars þar sem aðilar leggja fram gögn en aðalmeðferð verði í september.
- Innlent
- Jafnréttismál
- Stjórnmál
- Grái herinn
- Héraðsdómur Reykjavíkur
- Tryggingastofnun
- Ellilífeyrisþegar
- Almannatryggingar
- Lífeyrissjóðir
- skerðingar
- stjórnarskrá
- Mannréttindi
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Lagasetning
- Hæstiréttur Íslands
- Landsréttur
- Mannréttindadómstóll Evrópu
- Dómsmál
- Eldri borgarar
- Verkalýðsfélög
- Helgi Pétursson