Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir ríkið skulda sveitarfélaginu 130-140 milljónir

Drónamyndir frá Höfn í Hornafirði.
 Mynd: RÚV - Samsett
Vigdísarholt tekur við rekstri hjúkrunarheimila af Sveitarfélaginu Hornafirði um næstu mánaðamót. Bæjarstjórinn segir ríkið skulda sveitarfélaginu á annað hundrað milljónir króna sem enn sé ósamið um.

Hornafjörður er eitt fjögurra sveitarfélaga sem átt hafa í viðræðum við ríkið um yfirtöku á rekstri hjúkrunarheimila, en þau sögðu upp samningum á síðasta ári. Auk Hornafjarðar eru það Vestmannaeyjar, Akureyri og Fjarðabyggð. Mikil óvissa hefur ríkt um hvernig þessum rekstri verður háttað og hafa sveitarfélögin kvartað yfir óvissu og seinagangi í viðræðum við Sjúkratryggingar Íslands.

Vigdísarholt tekur við hjúkrunarheimilum á Höfn

Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri á Hornafirði, segir að nú hafi þessi þáttur málsins verið leystur þar. „Nýr rekstraraðili mun taka við núna fyrsta mars næstkomandi. Vigdísarholt heitir rekstraraðilinn, sem rekur í dag hjúkrunarheimilið sunnuhlíð í Kópavogi og Seltjörn á Seltjarnarnesi og er fyrirtæki í eigu ríkisins.“ Þetta sé lausnin sem þau hafi kallað eftir en sveitarfélagið hafi ekki lengur treyst sér til að sinna þessum rekstri. Hún segist bjartsýn á að þetta gangi vel. „Við hittum þau bara í gær í fyrsta skipti, núna 10 dögum áður en reksturinn á að flytjast yfir.“ 

Ríkið skuldi Hornafirði á annað hundrað milljónir

En þrátt fyrir þetta sé enn margt ófrágengið gagnvart ríkinu og meðal annars þurfi að ná til baka miklum halla af rekstri hjúkrunarheimila á Höfn. „Og við erum bara að skoða það hvernig við getum sótt það til ríkisins, það tap sem hefur safnast,“ segir Matthildur.
„Er það stór fjárhæð?“
„Fyrir árið 2020 eru það 130 til 140 milljónir eins og staðan er í dag.“ Hún segir sveitarfélagið muni leita réttar síns með aðstoð lögfræðinga, meðal annars hjá hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. „Markmiðið er auðvitað að ná þessu tapi til baka, allavega að hluta til.“