Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rauði krossinn kallar eftir innleiðingu spilakorta

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Rauði krossinn á Íslandi hefur um árabil kallað eftir stefnu stjórnvalda um innleiðingu spilakorta, líkt og Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa lagt til. Það sé skref í átt til aðstoðar hópi fólks með spilafíkn og að norrænni fyrirmynd.

Rauði krossinn óskar sömuleiðis eftir auknu samtali við stjórnvöld í þeirri von að reka verkefni hans með öðrum hætti en rekstri spilakassa.

„Rauði krossinn hefur markvisst unnið að því að byggja upp nýja tekjustofna á síðustu árum,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri og að til að geta tekist á við tekjutap þurfi félagið að endurskipuleggja alla starfsemi sína.

Í yfirlýsingu frá Rauða krossinum kemur fram upphaf þeirrar fjármögnunarleiðar megi rekja til áttunda áratugarins þegar svokölluð tíkallaspil fjármögnuðu aðstoð eftir gosið í Vestmannaeyjum. Önnur leið yrði valin í dag að því er segir í yfirlýsingunni.

„Við sinnum mikilvægum lífsbjargandi verkefnum hér á landi en rekstur okkar reiðir sig algjörlega á framlög fólks og fyrirtækja, auk samninga við stjórnvöld,“ segir Sveinn Kristinsson, formaður Rauða krossins á Íslandi.

Á árinu 2020 fjölgaði verkefnum Rauða krossins til muna, með viðbrögðum við heimsfaraldrinum, uppsetningu farsóttarhúsa, fleiri sjálfboðaliða þurfti að Hjálparsímanum, auk þess sem bregðast þurfti við vegna snjóflóða, óveðurs og aurskriða, til dæmis á Seyðisfirði.

Rauði krossinn rekur Íslandsspil ásamt Landsbjörg en SÁÁ tilkynnti úrsögn sína úr samvinnunni síðla seinasta árs. Nú er unnið að breytingu á  lagalegum þáttum varðandi brotthvarf SÁÁ en lög um spilakassa hafa verið í gildi frá árinu 1994.