Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Nýr veruleiki að menn séu myrtir „með köldu blóði“

Mynd: RÚV / RÚV
Lögreglan verður að komast að því hvað gerðist þegar maður var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt við Rauðagerði í Reykjavík um helgina. Þetta segir Helgi Gunnlaugsson, afbrotafræðingur og prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hann segir að það sé nýr veruleiki hér á landi, að menn séu myrtir með köldu blóði fyrir utan heimili sitt. Það auki hins vegar ekki öryggi borgaranna að vopnavæða almenna lögreglumenn.

„Þetta er óhugnanlegur atburður og við erum alls ekki vön atburðum af þessu tagi, sem betur fer,“ segir Helgi. „Og það sem ég held að skipti meginmáli núna er að það fáist einhver lausn á þessu máli. Það er að segja að lögreglan leysi þetta mál. Það gengur alls ekki að svona alvarlegur atburður verði ekki leystur af lögreglu, að þetta verði eitthvert óleyst mál á samvisku þjóðarinnar. Og það sem skiptir kannski miklu máli varðandi það er hvort grunsemdir lögreglunnar um að þarna sé um skipulagða, alþjóðlega glæpastarfsemi að ræða og að þetta sé eitthvert uppgjör í undirheimum. Hvort það sé rétt, þá þarf að staðfesta það fyrir dómi. Eða hvort þarna sé um að ræða persónulegt uppgjör á milli tveggja einstaklinga sem hefur kannski litla skírskotun í einhverja undirheima.“

Hvers vegna skiptir svona miklu máli að fá þetta á hreint?

„Bara réttaröryggi þjóðarinnar, að við búum í réttarríki þar sem menn komast ekki upp með glæp af þessu tagi, svona alvarlegan glæp, þar sem á sér stað morð í friðsömu, dæmigerðu hverfi í Reykjavík, þar sem fjölskyldufaðir er skotinn fyrir utan heimili sitt. Við viljum ekki að mál af þessu tagi gerist í okkar samfélagi og að síðan vitum við ekki neitt meira. Þannig að það má segja að það sé ógn við réttaröryggi okkar allra.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Háskóla Íslands.

Ef þetta er einhvers konar uppgjör í undirheimunum, og ef þetta er hluti af skipulagðri glæpastarfsemi, er það þá nýr veruleiki hér á landi?

„Athæfið sjálft er það. Við höfum ekki séð athæfi af þessu tagi í okkar samfélagi. En við höfum samt séð ýmis merki um skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi þar sem bæði útlendingar og Íslendingar koma við sögu. Við höfum séð handrukkanir, við höfum séð alvarlegt ofbeldi eiga sér stað á milli einstaklinga í þessum undirheimum. Við höfum séð manndráp sem er einhvers konar uppgjör í undirheimum. Þannig að þetta er ekki nýtt að því leyti. En beiting skotvopna, og að vera myrtur með köldu blóði fyrir utan sitt eigið heimili, þetta er eitthvað sem við höfum ekki séð áður. Og þar má alveg segja að það sé komið að minnsta kosti nýtt stig í þennan heim hjá okkur, þennan afbrotaheim.“

Hættan er fyrir hendi

Þarf almenningur að hafa miklar áhyggjur af þessu eða blandast hann sjaldnast inn í þetta? Er þetta oftast á milli og innan þessara hópa?

„Við þekkjum svona gengjastríð frá Norðurlöndunum og þar er þetta oft á tíðum stríð á milli gengja og á milli einstaklinga innan gengja. En hættan er auðvitað alltaf sú að venjulegir borgarar dreifist inn í þetta eða lendi þarna á milli. Og við höfum alveg dæmi um það frá Norðurlöndunum, þar sem venjulegir borgarar lenda í slíkri orrahríð eða skothríð á milli gengja. En auðvitað er það líka þannig að þetta eru undirheimar, þeir eru að stunda glæpsamlega starfsemi, sem auðvitað fjöldi Íslendinga sækir í með einhverjum hætti. Þannig að hættan er auðvitað fyrir hendi og út fyrir raðir þessara svokölluðu gengja, ef slíkt átti sér stað um síðustu helgi.“ 

Er eitthvað hægt að gera til þess að svona nokkuð endurtaki sig?

„Ég held að það skipti meginmáli fyrir okkur sem þjóð, að átta okkur á eftirspurninni eftir þjónustu þessara aðila, eða þeirri vöru sem þessir einstaklingar eru að selja. Það er oft talað um að fíkniefnaheimurinn velti milljörðum á ári. Sem þýðir auðvitað að það virðist vera markaður fyrir þessi efni. Og ég held að við ættum að einblína á það að reyna að draga úr þessari eftirspurn, eða að minnsta kosti að átta okkur á því hvað þarna er á ferðinni. Og ef við drögum úr eftirspurninni, þá minnkar framboðið. En ef við tökum út þessa einstaklinga, sem eru að anna þessari eftirspurn, þá fáum við bara einhverja aðra í staðinn, sem sjá þarna hagnaðarvon. Og ef þetta er rétt sem lögreglan telur, að þarna sé um mjög stóran markað að ræða, sem skiptir kannski milljörðum eða milljarðatugum á ári, þá er þarna um mjög mikla hagnaðarvon að ræða, fyrir einstaklinga sem eru að leita að slíku.“

Löghlýðnir borgarar

Þarna áttu í hlut menn sem eru af erlendu bergi brotnir, einhverjir vilja meina að svona glæpir séu óhjákvæmilegur fylgifiskur fjölgunar innflytjenda, er eitthvað til í því?

„Við þurfum að hafa í huga að innflytjendum hjá okkur hefur fjölgað mjög mikið á þessari öld,“ segir Helgi. „Um síðustu aldamót voru þetta 7.000 innflytjendur á Íslandi en þeir eru komnir yfir 50.000 í dag. Þannig að fjölgun í íslensku samfélagi er fyrst og fremst vegna innflytjenda. En innflytjendur eru í sjálfu sér bara eins og annað fólk. Og þeir eru bara eins og Íslendingar. Þeir eru að gera fullt af góðum hlutum í íslensku samfélagi en einhver hluti innflytjenda er tengdur brotastarfsemi, alveg eins og Íslendingar. Íslendingar eru auðvitað að gera góða hluti eins og allir vita. En það eru auðvitað Íslendingar sem tengjast brotastarfsemi. Þannig að innflytjendur fremja brot eins og við. Ef við skoðum ýmis gögn lögreglu og ef við skoðum fangelsisgögn, þá sjáum við að innflytjendur koma við sögu, þeir koma við sögu á svipaðan hátt og Íslendingar. Það er kannski heldur hærra hlutfall innflytjenda sem tengist afbrotum, við sjáum þetta í erlendum tölum og erlendum gögnum. Við sjáum þetta í íslenskum fangelsisgögnum. Það eru heldur fleiri útlendingar í fangelsi en sem nemur hlutfalli þeirra í íslensku samfélagi. En það er bara spurning hvernig við túlkum slíkar niðurstöður. Og þegar við förum að skoða samsetningu innflytjenda í samanburði við innfædda, þá sjáum við að erlendir innflytjendur á Íslandi eru öðruvísi samansettir en þjóðin að öðru leyti. Þeir eru yfirhöfuð yngri, þeir eru í meirihluta karlar, sem eru þeir hópar sem brotin koma meira úr en að öðru jöfnu. Og svo líka það að innflytjendur eru, ekki bara hér á landi heldur erlendis líka, yfirleitt í heldur veikari stöðu en innfæddir. Og það eru þættir sem hafa mjög mikið að gera með hvort menn fara í brot eða ekki. Og svo vil ég líka nefna annað sem skiptir mjög miklu máli, ef við tökum til dæmis íslensk fangelsi, þá eru mjög margir útlendingar í fangelsum sem búa ekki á Íslandi, þeir eru ekki íslenskir ríkisborgarar. Þeir hafa komið til Íslands til þess beinlínis að fremja brot. Þannig að langflestir þessara innflytjenda á Íslandi eru bara löghlýðnir borgarar eins og innfæddir.“

Er hætt við því að svona glæpur eins og þessi um helgina auki andúð á innflytjendum?

„Það er alltaf hætta á því. Og það að heilu þjóðirnar verði tengdar við brotastarfsemi eða eitthvað slíkt, þá auðvitað skiptir miklu máli að við fjöllum um málið. Og kannski það sem skiptir mjög miklu máli, að þetta mál upplýsist. Að við fáum raunverulega sannleikann um það sem raunverulega gerðist. Við höfum þetta hræðilega mál fyrir framan okkur, en við þurfum að vita hvað þarna var á ferðinni og hvers konar mál var þarna í gangi.“

Falskt öryggi

Það hefur mikil umræða átt sér stað eftir þetta, um hvort lögreglan þurfi að vera vopnuð í sínum daglegu störfum, hvað hefur þú um það að segja?

„Það er eðlilegt fyrir lögregluna að sífellt velta fyrir sér hvernig er best að haga viðbúnaði gagnvart lögbrotum og afbrotum í okkar samfélagi. Og ég geri ráð fyrir því að lögreglan sé að fara í gegnum þetta akkúrat núna. Spurningin er hvort við eigum að fara að vopna hverja einstöku lögreglu, eða lögregluþjón í samfélaginu. Ég stórefast um að það muni auka öryggi okkar. Aftur á móti verður lögreglan að vera viðbúin hverju sem er, athæfi eins og þessu sem er mjög alvarlegt athæfi þar sem vopnum var beitt. Og lögreglan verður að vera þjálfuð til þess að takast á við athæfi af því tagi. Og við höfum auðvitað sérsveitina sem gripið er til við svona hættulegar aðstæður. Og ég held að lögreglan eigi almennt að vera vel þjálfuð í beitingu ýmiss konar vopna. En ég held að það sé óþarfi, og auki ekki öryggi borgaranna, að einstakir lögreglumenn fari að mæta með alvæpni á vettvang borgaralegra mála í okkar samfélagi.“

En er það neikvætt ef lögreglumenn fara að ganga um með skammbyssu í beltinu eins og maður sér víða erlendis?

„Þá verðum við að hafa í huga, að í samfélögum, ef við berum til dæmis saman Svíþjóð og Noreg, í Svíþjóð eru einstaka lögregluþjónar vopnaðir en ekki í Noregi, og það er bara oftar gripið til vopna og skotvopna í Svíþjóð en í Noregi. Og þar verða, ég segi ekki alltaf slysaskot, en þar koma upp mál í samfélaginu þar sem vopnum er beitt og borgarar deyja og stundum lögreglumenn líka. Og það er í ríkari mæli en í Noregi, sem er auðvitað mjög sambærilegt samfélag að mörgu leyti. Það veitir allavega falskt öryggi að auka vopnaburð lögreglu hvað þetta snertir. En samt sem áður verður lögreglan á hverjum tíma að velta fyrir sér þessum viðbúnaði, og við viljum auðvitað að lögreglan geti tekist á við vanda af þessu tagi. Og þess vegna verða þeir að vera vel þjálfaðir og vera þannig búnir að þeir geti tekist á við aðstæður af þessu tagi. Og ég geri ráð fyrir því að lögreglan sé akkúrat að meta þetta þessa stundina, á hvern hátt sé best að verjast hlutum af þessu tagi. Og ég efast stórlega um það að þótt hver einasti lögregluþjónn hefði verið vopnaður þarna um síðustu helgi, að það hefði breytt einu eða neinu varðandi þetta athæfi sem átti sér stað þarna um síðustu helgi,“ segir Helgi.