Nýjar tölur sýna marglaga misrétti á vinnumarkaði

18.02.2021 - 12:31
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
„Þessar tölur varpa ljósi á marglaga misrétti á vinnumarkaði og í samfélaginu,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, um nýuppfærða Tekjusögu stjórnvalda sem sýnir mikinn mun á heildartekjum kynjanna. Tölurnar sýna meðal annars að konur í sambúð með meistaragráðu hafa að jafnaði næstum hundrað þúsund krónum lægri heildartekjur á mánuði en karlar í sambúð með grunnháskólamenntun eða bakkalárgráðu.

„BHM hefur árum saman bent stjórnvöldum og viðsemjendum sínum á að menntun sé ekki metin til launa með réttum hætti og þetta sýnir okkur líka að háskólamenntun kvenna er ekki talin jafnmikils virði og háskólamenntun karla. Hluti af vandanum er kynskiptur vinnumarkaður, en það er ekki nóg, þetta snýst í rauninni um verðmætamat á störfum, menntun og þekkingu og framlagi kvenna til samfélagsins,“ segir Þórunn í samtali við fréttastofu. 

Konur með grunnháskólamenntun hafa svipaðar heildartekjur og karlar sem aðeins hafa lokið grunnskóla, og á landsbyggðinni hafa þeir hærri tekjur en þær. Ef horft er á tekjur kynjanna óháð menntun eru heildartekjur karla að meðaltali um 29 prósentum hærri. Nýjustu gögn eru fyrir skattárið 2018 en Þórunn segir þau gefa skýra vísbendingu um að það sé enn langt í land að kynin standi jöfn. 

„Við vitum að kynbundinn launamunur á vinnumarkaði hefur ekki haggast í nærri áratug, ef ég man rétt. Og jafnlaunavottunin er tæki innan stofnana og fyrirtækja og lagar ekki kerfisbundna mismunun á vinnumarkaði,“ segir hún.