Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Líkti síðasta hrunmálinu við Al Thani-málið

18.02.2021 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Lánveitingar Kaupþings til vildarviðskiptavina rétt fyrir hrun eru sambærilegar Al Thani málinu og markaðsmisnotkunarmáli bankans, sagði Björn Þorvaldsson saksóknari í Landsrétti í dag. Hann krafðist sakfellingar yfir fyrrverandi stjórnendum Kaupþings. Björn sagði að við ákvörðun refsingar yrði að taka mið af því að meiri fjármunir væru undir í þessu máli heldur en nokkru öðru refsimáli sem tengist hruninu.

Aðalmeðferð í síðasta hrunmálinu var haldið áfram í dag. Björn Þorvaldsson saksóknari flutti mál sitt síðdegis. Hann krafðist þess að Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson yrðu sakfelldir fyrir lán sem Kaupþing veitti vildarviðskiptavinum skömmu fyrir hrun. Lánin voru veitt til viðskipta sem áttu að lækka skuldatryggingaálag á bankann. Lánin náum 510 milljónum evra, andvirði 66 milljarða króna í dag. 

Viðskiptavinir, sem skulduðu bankanum mikið fé fyrir, lögðu ekkert fé til viðskiptanna en gátu hagnast mikið á þeim. Stjórnendur bankans sögðu í málsvörn sinni að þeir hefðu verið að bregðast við skuldatryggingaálagi sem þeir töldu að væri haldið hærra en það ætti að vera. Deutsche Bank gaf út skuldabréf sem tengdust skuldatryggingaálagi og Kaupþing útvegaði viðskiptamenn til að kaupa þau með fjármögnun bankans.

Krefst sakfellingar eftir tvær sýknanir

Sakborningarnir þrír voru sýknaðir tvívegis í Héraðsdómi Reykjavíkur. Björn sagði að dómstóllinn hefði ekki tekið mið af dómafordæmum.

Björn sagði málið vera sambærilegt Al Thani málinu og markaðsmisnotkunarmáli Kaupþings þar sem stjórnendur og starfsmenn voru sakfelldir - þar á meðal sakborningarnir þrír í þessu máli. „Í öðru tilvikinu var verið að reyna að halda hlutabréfavirðinu uppi og í hinu var verið að reyna að lækka skuldatryggingaálagið á bankann.“

Saksóknari vill fullnýta refsiramma í svona brotum. Hann er sex ár. Nú þegar er búið að dæma Hreiðar til sex ára fangelsisrefsingar, Sigurð til fimm ára og Magnús til fjögurra og hálfs af því hámarki. Vegna þess hve langt er um liðið frá upphafi málsins yrðu allir dómar að líkindum skilorðsbundnir. Hreiðar, Sigurður og Magnús voru sýknaðir í héraði. Málflutningur verjenda þeirra verður á morgun.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Hreiðar Már Sigurðsson, einn sakborninga.

Þrettán milljarða tap

Björn hafnaði rökum sakborninga og verjenda þeirra um að þeir hefðu ekki valdið bankanum hættu á fjártjóni. Hann sagði að Kaupþing hefði engar tryggingar tekið fyrir lánunum. Þegar bankinn varð gjaldþrota lýsti Deutsche Bank skuldabréfin verðlaus. Í átta ár hefði ekkert legið fyrir um endurheimtur og þrátt fyrir samkomulag slitastjórnar Kaupþings við Deutsche Bank næmi tapið 85 milljón evrum, þrettán milljörðum að núvirði. 

Segir ekki hægt að sýkna fyrir öll lánin

Sakborningar voru sýknaðir í héraði. Þeir hafa meðal annars sagt í málsvörn sinni að lánin hafi verið trygg á þeim tíma sem þau voru veitt. Sigurður Einarsson sagði að eina leiðin til að féð tapaðist hefði verið ef Kaupþing eða Deutsche Bank færi á hausinn. Það hefði enginn séð fyrir sumarið 2018 enda staðan bankanna góð.

Björn saksóknari andmælti þessu. Hann sagði að jafnvel þótt svo menn mætu að staða Kaupþings hefði verið trygg þegar fyrstu lánin voru veitt í ágúst ætti það engan veginn við þegar síðustu lánin voru veitt, 250 milljónir evra af 510 milljónum. Skuldatryggingaálag lækkaði fyrst eftir útgáfu skuldabréfanna en fór síðan hækkandi aftur. Þá krafðist Deutsche Bank þess að fá greidd lán sem þýski bankinn veitti við útgáfu skuldabréfanna. Það varð til þess að Kaupþing varð að leggja til meira fé.

Björn sagði að hækkandi skuldatryggingaálag hefði verið til marks um tvísýna stöðu bankans. Því hefði ekki verið hægt að tala um góða stöðu bankans við veitingu síðustu lánanna í september og október „...sem var ansi seint í ferlinu, daginn eftir Guð blessi Ísland,“ sagði Björn um eitt lánið. Þá hefði síðasta lánið verið veitt þegar allt var komið í óefni og Seðlabankinn búinn að leggja Kaupþingi til fé „þannig að hluti neyðarlánsins fór í að kasta út síðustu aurunum í þetta verkefni“.

Aðalmeðferð lýkur á morgun með málflutningi verjenda.