Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Legsteinar og duftker ekki í verðlaun á hestamannamóti

18.02.2021 - 12:37
Mynd: Gísli Einarsson / Gísli Einarsson
Mikil aðsókn er í hestamannamótið Fimmgangur Útfararstofu Íslands sem verður í kvöld. Formaður hestamannafélagsins Spretts, sem jafnframt er útfararstjóri, segir að þrátt fyrir þetta verði einungis hefðbundnir bikarar í verðlaun. „Það er alla vega ekkert sem tengist útfararstofunni,“ segir Sverrir Einarsson, útfararstjóri og formaður Spretts.

„Það er svona mótaröð sem er í gangi hjá okkur sem er kölluð Áhugamannadeild Spretts. Þetta er eitt af fjórum mótum sem fer fram í kvöld,“ segir Sverrir.

Núna fer mótið fram í nafni útfararstofu?

„Já. Ég er formaður Spretts og ég er útfararstjóri og á Útfararstofu Íslands. Við styrkjum þetta mót,“ segir Sverrir og bendir á að stofan styrkir keppnina í kvöld. Hún sé hluti af stærri mótaröð sem heitir Equsana-mótaröðin eftir kjarnfóðri fyrir hesta.

Í hverju er keppt í kvöld?

„Það er keppt í fimmgangi,“ segir Sverrir.

En það eru engar afturgöngur?

„Nei, það eru ekki afturgöngur í þessu. Ekki það ég viti,“ segir Sverrir.

Er góð þátttaka í kvöld?

„Já, þetta eru 39 keppendur í hverri mótaröð,“ segir Sverrir.

Hvað er í verðlaun?

„Þetta eru bara bikarar og slíkt. Það er alla vega ekkert sem tengist útfararstofunni,“ segir Sverrir.

Hægt er að fylgjast með mótinu í vefútsendingu https://www.alendis.tv/alendis/.

Óvenjulegt að mót séu í nafni útfararstofa 

Í frétt um málið í Morgunblaðinu viðurkennir Sverrir að það sé óvenjulegt að hestamannamót séu í nafni útfararstofa. „Ég er mikill hestamaður og er að reka mitt fyrirtæki. Við reynum að leggja góðu málefni til þegar við getum. Oft líka lætur maður nafnið ekki koma fram,“ segir Sverrir í samtali við RÚV.

Sverrir segir að það fari vel saman að starfa við útfararþjónustu á daginn og stunda hestamennsku á kvöldin.

„Það er mjög gott. Þegar maður er búinn að vinna fer maður í hesthúsið. Þar er maður með sína vini sem eru hestarnir. Það er afskaplega gott að dreifa huganum þannig. Svo er mikið af góðu fólki í kringum mann þarna uppfrá,“ segir Sverrir.