Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggur ekki til að fólk felli grímuna á næstunni

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason býst við að hann komi seint með þau tilmæli að fólk felli grímurnar, ýmis starfsemi, á borð við krár og líkamsræktarstöðvar sé viðkvæmari en önnur og því þurfi að fara að öllu með gát. 

„Ég get ekki betur séð en að allir séu með grímur og líði bara vel með þessar grímur út í búð og svo framvegis,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi Almannavarna í morgun.

„Við erum ekki búin að útrýma veirunni, ég er næstum viss um það. Hvar hún er nákvæmlega það er erfitt að segja,“ sagði Þórólfur. Hann segir jafnframt erfitt að segja hvenær hjarðónæmi náist. 

Sóttvarnarlæknir kveðst óttast að ógreind smit geti leynst úti í samfélaginu. Það hafi sýnt sig síðastliðið sumar og haust þegar veiran blossaði allt í einu upp eftir að engin smit höfðu greinst um nokkra hríð.

Þórólfur segir bestu og áhrifaríkustu sóttvörnina að loka öllu en efast um að það gangi hér. Hér hafi verið mikil óánægja með vægar aðgerðir. 

„Ég sé ekki fyrir mér að menn fari út mjög harðar aðgerðir nema við fáum mikið bakslag í faraldurinn,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi Almannavarna í í morgun.

Sóttvarnarlæknir stefnir á að skila tillögum til heilbrigðisráðherra um tilslakanir innanlands um helgina eða snemma í næstu viku.