Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leggja til afnám undanþágu hjúskapar yngri en átján ára

Mynd með færslu
 Mynd: Van Th?ng - Pexel
Breytingar varðandi undanþáguheimild vegna lágmarksaldurs til þess að stofna til hjúskapar og á könnun hjónavígsluskilyrða eru meðal þess sem lagt er til í frumvarpi til laga um breytingu á hjúskaparlögum.

Frumvarp dómsmálaráðherra er nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda en auk framangreinds er lagt til að breyting verði á lögsögu í hjónaskilnaðarmálum og að verkefni verði færð frá dómsmálaráðuneytinu til sýslumanna. 

Lagt er til að afnema lagaheimild til að veita fólki yngra en 18 ára undanþágu til að ganga í hjúskap. Jafnframt að hjónavígslur yngra fólks erlendis verði ekki viðurkenndar hér á landi nema með ströngum undanþágum.

Þær undanþágur taki hliðsjón af hagsmunum þess sem er undir 18 ára aldri og uppfylla þurfi þau skilyrði að einstaklingur hafi náð 16 ára aldri þegar hjónavígslan fór fram. Jafnframt skuli hjónavígslan vera viðurkennd í því ríki þar sem hún fór fram.

Í frumvarpinu er einnig lagt til að sýslumenn sjái um könnun hjónavígsluskilyrða, hvort sem hjónaefnin eiga lögheimili hér á landi eða ekki. Jafnvel geti ráðuneytið með reglugerð falið einu sýslumannsembætti það verkefni.

Vígsluheimildir presta og forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga verða óbreyttar. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á ákvæðum hjúskaparlaga varðandi lögsögu íslenskra stjórnvalda og dómstóla til þess að veita lögskilnað hér á landi.

Það eigi við í tilteknum tilvikum ef hvorugt hjónanna er búsett á Íslandi og eru ekki íslenskir ríkisborgarar.