Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ísland ekki kórónuveirulaust

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Ekki er hægt að segja að Ísland sé orðið kórónuveirulaust land þrátt fyrir að fá smit hafi greinst að undanförnu. Þetta segir Thor Aspelund prófessor í líftölfræði. Þó það sé markmið margra ríkja að losna alveg við veiruna sé erfitt að fullyrða að ríki geti orðið veirulaust.

„Þetta er verið að deila um núna og verið að skrifa um og hvort það sé hægt að fullyrða svona. Auðvitað skiptast menn í fylkingar í þessum málum sem öðrum. Meirihluti telur núna að það sé ekki hægt að  fullyrða það eins og í löndum þar sem er svipuð staða og hér, eins og í Nýja-Sjálandi eða Ástralíu, að það sé hægt að fullyrða að það sé veirulaust. Ég held að við getum alveg hugsað okkur þetta þannig, að við viljum stefna þangað en tæknilega, bara út af veirum og hvernig þær hegða sér, þá mun hún vera með okkur, því miður, áfram,“ segir Thor Aspelund í viðtali við Morgunvaktina á Rás 1.

En nú hefur ekki komið upp samfélagssmit í tæpan mánuð. Af hverju er ekki hægt að tala um Ísland sem kórónuveirulaust?

„Ef við gætum lokað okkur alveg af, þá væri það möguleiki,“ segir Thor. Þá séu uppi efasemdir um að landið hafi verið alveg veirulaust í sumar.