Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Facebook stöðvar deilingu ástralskra frétta

18.02.2021 - 03:40
epa07960040 (FILE) - A close-up image showing the Facebook app on an iPhone in Kaarst, Germany, 08 November 2017 (reissued 30 October 2019). Facebook will release their 3rd quarter 2019 earnings report on 30 October 2019.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA
Framkvæmdastjóri Facebook í Eyjaálfu greindi frá því í gær að komið verði í veg fyrir að hægt verði að birta og deila fréttum ástralskra fjölmiðla á samskiptamiðlinum í Ástralíu. Er þetta svar Facebook við boðaðri löggjöf, sem kveður á um að Facebook, Google og sambærilegir miðlar þurfi að greiða áströlskum fjölmiðlum höfundarlaun fyrir birtingu á efni þeirra. Tekið var fyrir deilingu fréttaefnis á Facebook í Ástralíu strax í morgun, en svo virðist sem aðgerðin hafi stöðvað fleira en fréttir.

William Easton, framkvæmdastjóri Facebook í Ástralíu og Nýja Sjálandi, greindi frá þessum áformum í bloggfærslu, þar sem hann segir lögin til vitnis um grundvallarmisskilning löggjafans á sambandinu milli þess vettvangs sem Facebook er og útgefenda sem kjósa að nota Facebook til að deila og dreifa fréttum sínum. 

Þetta þvingi fyrirtækið til að velja á milli tveggja, slæmra kosta; „að reyna að fara að lögum sem hundsa hvernig þessu sambandi er háttað í raun, eða hætta að leyfa birtingu fréttaefnis á miðlum okkar í Ástralíu. Eins þungbært og það er, þá veljum við síðari kostinn,“ skrifar Easton.

Segir Zuckerberg enn í viðræðum við stjórnvöld

Þrátt fyrir þetta segist Josh Frydenberg, fjármálaráðherra Ástralíu, hafa átt „uppbyggilegt samtal“ við Mark Zuckerberg, forstjóra og aðaleiganda Facebook, í morgun. Zuckerberg hafi gert athugasemdir við nokkur atriði í löggjöfinni, en þeir hafi sammælst um að halda viðræðum áfram.

Ástralska ríkisstjórnin segir að með löggjöfinni eigi að tryggja áströlskum fjölmiðlum sanngjarnt endurgjald fyrir framlag sitt til vinsælda og notkunar miðla á borð við Facebook og Google. Markmiðið sé að þvinga risafyrirtækin til að semja um slíkt endurgjald við fjölmiðlana, en greiða lögbundið gjald að öðrum kosti.

Easton bendir á að það séu fjölmiðlarnir sjálfir sem kjósi að deila efni sínu á Facebook, enda hafi þeir beinan, fjárhagslegan ávinning af því að koma fréttum sínum til sem flestra.

Stjórnendur Google hafa líka hótað að loka aðgangi ástralskra notenda að leitarvél sinni, verði lögin samþykkt. 

Lokunin mun víðtækari en boðað var

Samkvæmt fréttum frá Ástralíu hefur Facebook þegar látið verða af hótun sinni og stöðvað deilingu frétta úr áströlskum fjölmiðlum á Facebook þar í landi. Sá er þó galli á gjöf Njarðar að fréttir ástralskra fjölmiðla er langt í frá það eina sem ekki er lengur hægt að deila á Facebook þar syðra.

Þetta á nefnilega líka við um fréttir og tilkynningar frá hinu opinbera, veðurstofunni, hinum ýmsu félagasamtökum og góðgerðastofnunum, stéttarfélögum, heilbrigðisyfirvöldum og meira að segja frá Facebook sjálfri. Þá geta ástralskir Facebook-notendur heldur ekki deilt fréttum erlendra fjölmiðla, þótt ætlunin hafi verið að stöðva einungis deilingu á fréttum ástralskra fjölmiðla.