Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Draumur Serenu um 24. titilinn rætist ekki í Melbourne

epa09020265 Serena Williams of the United States hugs Naomi Osaka of Japan after losing the Women's singles semifinals match on Day 11 of the Australian Open Grand Slam tennis tournament at Melbourne Park in Melbourne, Australia, 18 February 2021.  EPA-EFE/DAVE HUNT AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA

Draumur Serenu um 24. titilinn rætist ekki í Melbourne

18.02.2021 - 11:23
Japaninn Naomi Osaka hafði betur gegn Serenu Williams frá Bandaríkjunum í undanúrslitum Opna ástralska tennismótsins í morgun. Williams, sem er 39 ára, hefði með sigri á mótinu jafnað ótrúlegt met Ástralans Margaret Court sem vann 24 risatitla á ferlinum.

Osaka vann leikinn í tveimur settum, 6-3 og 6-4. Williams brast í grát á blaðamannafundi eftir leikinn og sagði að ef hún myndi einhvern tímann hætta að þá myndi hún ekki segja neinum frá því. 

Osaka, sem vann Opna ástralska 2019, mætir Jennifer Brady frá Bandaríkjunum í úrslitunum en sú síðarnefnda hefur aldrei áður komist í úrslit á risamóti. Brady lagði Karolinu Muchovu frá Tékklandi í undanúrslitum í þremur settum, 6-4, 3-6 og 6-4. 

Djokovic í úrslit

Serbinn Novak Djokovic, efsti maður heimslistans, komst svo í úrslitaleikinn eftir sigur á Rússanum Aslan Karatsev í undanúrslitum í morgun. Djokovic, sem hefur unnið Opna ástralska átta sinnum á ferlinum, vann örugglega í þremur settum, 6-3, 6-4 og 6-2. 

Hann mætir sigurvegaranum í undanúrslitaviðureign Rússans Daniil Medvedev og Stefanos Tsitsipas frá Grikklandi í úrslitum. 

Áhorfendur voru leyfðir aftur á mótinu í dag eftir að útgöngubanni í Viktoríuríki var aflétt. Tæplega 10 þúsund áhorfendur voru á leiknum í morgun.