Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Bretar klára að bólusetja í ágúst

Mynd: EPA / EPA
Næst á eftir Ísrael hefur hvergi verið bólusett hærra hlutfall af landsmönnum en í Bretlandi. Í ágúst er þess vænst að búið verði að bólusetja alla Breta tvisvar sinnum. Hægt og bítandi er því að verða til bæði þekking á og reynsla af þeim bóluefnum, sem eru notuð en mörgum Bretum finnst ganga hægt að upplýsa um hvað verði svo.

Bretar brugðust seint við Covid í upphafi...

Alveg þangað til í desember að fyrstu Bretarnir voru bólusettir hafði allt farið á heldur slæman veg í baráttu Breta gegn Covid 19 faraldrinum. Breska stjórnin undir forystu Boris Johnsons forsætisráðherra var lengi að átta sig á alvarleika faraldursins, var óviljug og sein til aðgerða í upphafi og allar götur síðan. Nú hafa tæplega 120 þúsund Bretar látist í veirufaraldrinum,  fleiri en í nokkru öðru Evrópulandi.

... en voru fyrstir Evrópuþjóða til að hefja bólusetningu

Bretar voru fyrstir Evrópuþjóða til að hefja bólusetningu. Í Bretlandi er búið að bólusetja fleiri en samanlagt hafa verið bólusettir á Spáni, Ítalíu, í Þýskalandi, Frakklandi, Póllandi og Belgíu.

Skýringin á góðum árangri Breta í bólusetningu

Eftir allar veiruhrakfarirnar bresku heyrist víða spurt hver sé eiginlega skýringin á þessum góða árangri Breta í bólusetningu. Hér svarar Steve Bates, fyrrum meðlimur í vinnuhópi ríkisstjórnarinnar um bóluefni, þeirri spurningu í viðtali við CNN í vikunni: ,,Okkur tókst að tengja saman hraðann í að finna bóluefni, koma magnframleiðslu í gang og dreifa bóluefninu hratt,“ sagði Bates.

Vinnuhópurinn lagði alla áherslu á að semja við fyrirtæki sem virtust með vænleg bóluefni, að styðja og styrkja rannsóknarvinnu fyrirtækjanna og búa í haginn fyrir bóluefnaframleiðsluna.

Erfitt upphaf

Í fyrstu virtist sem það að koma bólusetningunni af stað væri eitt en að ná að bólusetja einhvern verulegan fjölda á dag væri annað. Það vantaði mikið upp á að næðist að bólusetja nokkrar milljónir fyrir jól eins og stefnt var að. Stjórnin herti þá enn loforðin, markmiðið að bólusetja skilgreinda forgangshópa um miðjan febrúar, það er fólk yfir áttrætt, áhættuhópa og starfsfólk elli- og umönnunarheimila, alls fimmtán milljónir.

Stefnt að því að ljúka bólusetningu þjóðarinnar í ágúst

Þetta þótti bratt en það gekk eftir. Búið að bólusetja ríflega fimmtán milljónir manna á mánudaginn var, eins og til stóð. Um hálf milljón manna er bólusett daglega. Miðað við þetta og að Bretar hafa nóg bóluefni er markmiðið nú að það verði búið að tví-bólusetja alla fullorðna Breta í ágúst.

Bretar breyttu út af forskrift framleiðenda um tímann milli fyrri og seinni bólusetningar

Ein veigamikil breyting var gerð eftir að bólusetningin fór svona heldur skrykkjótt af stað. Það þarf að tví-bólusetja til að ná fullri virkni og það áttu að líða þrjár vikur milli bólusetninga. Í stað þess að fylgja þessari forskrift framleiðenda var ákveðið að leggja heldur alla áherslu á að bólusetja sem flesta sem fyrst en láta þá líða lengra á milli skammtanna tveggja.

Bresk heilbrigðisyfirvöld töldu það vera í lagi, lengri tími milli skammta drægi ekki úr virkninni. Ávinningurinn þá sá að fleiri fengju einhverja vörn sem fyrst í stað þess að færri fengju fulla vörn. Rannsóknir hafa sýnt að þetta er líklega ekki til skaða.

Vísbending um að bólusetningin sé farin að skila árangri

Það er smá vísbending um bólusetningin sé þegar farin að hafa áhrif. Það veikist nú færri í hópum, sem hafa þegar verið bólusettir. Útbreiðslan er þó enn mikil, mest í yngri aldurshópum, þrátt fyrir strangar lokanir síðan fyrir jól.

Erfitt að ná til sumra hópa

Áður en bólusetning hófst var uggur um að töluverður hluti fólks myndi ófús að láta bólusetja sig. Bólusetning hefur þó fallið í kram eldri borgara en meðal fólks af afrískum og asískum ættum hefur áhugi á bólusetningu verið minni. Einkar áhyggjusamlegt þar sem margt fólk af þessum uppruna vinnur í heilbrigðiskerfinu.

Einn þeirra sem hefur sérstaklega talað til þessara hópa er Jonathan van Tam aðstoðarlandlæknir Englands, sem er sjálfur af víetnömskum ættum: ,,Veirunni er alveg sama um þjóðerni fólks. Henni er sama hvernig fólk er á litinn eða hvar í heiminum það býr. Ekkert af þessu skiptir máli, bara hvort þú ert mannvera,“ sagði van Tam nýlega.

Æ fleiri bólusettir, nú vilja Bretar fara að skvetta úr klaufunum

En einmitt af því bólusetningin gengur vel gætir vaxandi óþolinmæði í Bretlandi að hægt verði sem fyrst að opna á þjóðlífið aftur. Þingmenn stjórnarflokksins áberandi óþolinmóðir. Næstu tilkynningar forsætisráðherra um veirureglur er að vænta mánudaginn 22. febrúar. Erfitt að segja hvað verður ofan á en engin spurning að Bretar eru búnir að fá verulega nóg af einangrun og lokuðu landi. Bólusetningin ýtir klárlega undir löngun til að sletta úr klaufunum.