Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Bandaríkin boða milljarðagreiðslur í sjóði WHO

epa08978678 (FILE) - The logo and building of the World Health Organization (WHO) headquarters in Geneva, Switzerland, 15 April 2020 (reissued 31 January 2021). According to media reports, the World Health Organization is among the nominated for this year's Nobel Peace Prize, all backed by Norwegian lawmakers.  EPA-EFE/MARTIAL TREZZINI
Merki Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar utan á aðalstöðvum hennar í Genf í Sviss Mynd: epa
Bandaríkjastjórn hyggst leggja um 200 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 26 milljarða króna, til reksturs Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO, innan skamms. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti þetta á fjarfundi með Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í nótt.

„Þetta er skref í áttina að því að standa við fjárhagslegar skuldbindingar okkar sem aðildarríki, og er til marks um endurnýjaðan vilja okkar til að tryggja að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin njóti þess stuðnings, sem hún þarf að hafa til að leiða baráttu heimsbyggðarinnar við heimsfaraldurinn,“ sagði Blinken.

Ráðherrann lagði jafnframt áherslu á mikilvægi þess að berjast gegn dreifingu rangra og villandi upplýsinga um bóluefni og fyrir öflun og dreifingu réttra og mikilvægra upplýsinga um uppruna og þróun faraldursins.

Ógilti ákvörðun Trumps um úrsögn

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, dró Bandaríkin út úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni í júlí í fyrra og hefði úrsögnin tekið gildi í júlí á þessu ári að óbreyttu. Joe Biden gerði það hins vegar að einu af sínum fyrstu embættisverkum eftir að hann tók við forsetaembættinu í janúar, að ógilda þessa ákvörðun forvera síns.