Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Akureyrarbær semur um kaup á nýju stólalyftunni

18.02.2021 - 17:51
Mynd með færslu
 Mynd: Geir Gíslason
Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur ákveðið að ganga til samninga um kaup á nýju stólalyftunni í Hlíðarfjalli af Vinum Hlíðarfjalls. Talsmaður félagsins segir að lyftan sé tilbúin til afhendingar.

Fjallað var um þetta mál á fundi bæjarráðs í morgun og fallist á þá tillögu stjórnar Hlíðarfjalls að tekið verði við lyftunni, með fyrirvara um að tímabundin heimild fáist frá Veðurstofu Íslands gagnvart núverandi verklagi við snjóflóðahættumat.

Kaupa lyftuna á rúmar 300 milljónir króna

Þá var samþykkt að bæjarráð haldi eftir hluta af greiðslu fyrir lyftuna þar til öllum verkþáttum að hálfu Stólalyftu ehf., félagi Vina Hlíðarfjalls, verði lokið og ef eitthvað komi upp á við rekstur lyftunnar sem rekja megi til ófullnægjandi búnaðar eða frágangs. Áður hefur komið fram að Akureyrarbær kaupir lyftuna á 323 milljónir króna.

Ganga til samninga við Stólalyftu ehf. 

„Meirihluti bæjarráðs felur bæjarlögmanni, sviðsstjóra fjársýslusviðs og sviðsstjóra samfélagssviðs að ganga til samninga við Stólalyftu ehf. um greiðslur og afhendingu lyftunnar í samræmi við tillögu stjórnar Hlíðarfjalls og umræður á fundinum. Drög að samningi verði lögð fyrir bæjarráð,“ segir í bókun bæjarráðs.

Lokaprófanir á lyftunni kláruðust í dag

Geir Gíslason, talsmaður vina Hlíðarfjalls, segir að sjálf lyftan sé tilbúin til afhendingar. Hinsvegar eigi eftir að ljúka uppsetningu á mastri sem sé hluti af sprengibúnaði efst í fjallinu til að sprengja niður hættulegar snjóhengjur. Undirstöðurnar séu tilbúnar en svissneskir sérfræðingar þurfi að koma til landsins og reisa mastrið. Þar hafi Covid sett strik í reikninginn. „Annars er í sjálfu sér allt klárt og lyftan sjálf tilbúin til afhendingar,“ segir Geir. „Við áttum eftir að láta lyftuna rúlla stanslaust í 25 tíma og það kláraðist í dag og gekk vel.“