Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þrjú sveitarfélög hafa samþykkt Suðurnesjalínu tvö

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar samþykkti framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2, milli Hafnarfjarðar og Rauðamels í landi Grindavíkur, í gær. Nú er beðið eftir því að Vogar ljúki umfjöllun sinni en þegar hefur borist samþykki frá bæjarstjórnum Hafnarfjarðar og Grindavíkur.

Því hafa þrjú af fjórum sveitarfélögum þar sem línan liggur gefið framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2.

Í áliti Skipulagsstofnunar kom fram að þau sveitarfélög sem hlut ættu að máli skyldu taka sameiginlega afstöðu til valkostanna.

Stefnt er að því á þessu ári að hefja framkvæmdir við nýja loftlínu sem verður 220 kílóvolt og 34 kílómetra löng og er ætlað að liggja meðfram Suðurnesjalínu 1.

Suðurnesjalína 1 er 132 kílóvolt og er nú eina raforkulínan sem flytur raforku til og frá Suðurnesjum. Falli hún út fylgir því nær undantekningalaust straumleysi á Suðurnesjum.  

„Við hjá Landsneti höfum í mörg ár bent á mikilvægi þess að ráðast í framkvæmdir til að bæta raforkuöryggi á Suðurnesjum. Það er ánægjulegt að sjá málið þokast áfram,“ segir Sverrir Jan Norðfjörð, framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets.

Heildaráhrif metin neikvæð á landslag og jarðmyndanir

Í frummatsskýrslu VSÓ-ráðgjafar um Suðurnesjalínu segir að heildaráhrif framkvæmdarinnar verði talsverð til veruleg neikvæð á landslag og ásýnd og jarðmyndanir á hluta leiðarinnar.

„Áhrif eru metin talsverð neikvæð á ferðaþjónustu og útivist og vistgerðir á hluta leiðar. Áhrif á aðra umhverfisþætti eru metin óveruleg og nokkuð neikvæð.“

Tryggir orkuröryggi og glæðir atvinnulíf

Búist er við að Suðurnesjalína tryggi öryggi í afhendingu rafmagns á Suðurnesjum og verði til þess að nýir möguleikar opnist í atvinnulífi á svæðinu.

Aukin umsvif á Keflavíkurflugvelli, meiri orkunotkun gagnvera og ör fólksfjölgun valda því að spurn eftir raforku hefur aukist meira þar en annars staðar á landinu. Raforkuspá til ársins 2050 staðfestir þá auknu eftirspurn.

Raforkuöryggi á Suðurnesjum er talið meðal mikilvægustu verkefna sem ráðast þyrfti í eftir að fárviðri í desember 2019 hafði mikil áhrif á flutningskerfi raforku í landinu.

„Nú í desember síðastliðinn kom svo önnur áminning þegar jarðskjálftar á Reykjanesskaga fóru að aukast á ný“ segir Sverrir Jan Norðfjörð framkvæmdastjóri þróunar- og tæknisviðs Landsnets..