Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Styttir upp rétt fyrir næsta úrkomubakka á Seyðisfirði

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnadeild Ríkislögregl - RÚV
Ekki er vitað til þess að skriða hafi fallið á Austfjörðum í gær eða nótt, að því er kemur fram í fréttatilkynningu ofanflóðavaktar Veðurstofunnar. Þá hefur engin marktæk hreyfing orðið í hlíðinni fyrir ofan Seyðisfjörð. Úrkoma mældist 40-45 mm í nótt. Það rigndi meira sunnar á Austfjörðum, á Fáskrúðsfirði, Eskifirði og í Neskaupstað. Stytta á upp fyrir hádegi en svo er búist við öðrum úrkomubakka í kvöld.

Mest rigndi undir morgun og segir í tilkynningunni að 6-7 mm/klst hafi fallið síðla nætur og nú í morgun. „Heildarúrkoma síðan á sunnudag er komin í um 90-110 mm á sjálfvirku veðurstöðvunum þremur í firðinum,“ segir í tilkynningunni. 

Um hádegi ætti að stytta upp að mestu á Austfjörðum en í kvöld kemur annar úrkomubakki upp að ströndinni sem verður líklega slydda eða snjókoma. Rýmingar á Seyðisfirði verða endurmetnar um hádegisbil.