Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skoða allar hugmyndir sem beina spilun í ábyrgan farveg

17.02.2021 - 16:32
Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Bryndís Hrafnkelsdóttir, framkvæmdastjóri Happdrættis Háskóla Íslands, segir unnið að lausn sem veiti þátttakendum tækifæri til að stýra sinni spilun með því setja sér eigin takmörk og/eða útiloka sig frá spilun. Metið sé að það verði best gert með því að auðkenna sig með rafrænum hætti.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari við fyrirspurn fréttastofu um viðhorf HHÍ til þeirrar miklu umræðu sem nú er uppi um spilakassa og spilafíkn.

„Það leysir ekki allan vanda þeirra sem eiga við spilafíkn að etja, að loka happdrættisvélunum.“ Þeir sem spila finni sér annan farveg og það gæti orðið til þess að spilun færist úr löglegu umhverfi og „undir radarinn“.  

Bryndís segir stöðugt hugað að leiðum til að tryggja tekjustofna happdrættisins til framtíðar og hefur komið þeim hugmyndum á framfæri við stjórnvöld.

Það verði þó aldrei einhliða ákvörðun HHÍ eða Háskóla Íslands, hagur allra sé að hér sé heilbrigður happdrættismarkaður. „Við erum reiðubúin að skoða allar hugmyndir sem geta beint spilun í ábyrgan farveg,“ segir í svarinu.

Núverandi fyrirkomulag skili umtalsverðum tekjum til samfélagslega mikilvægra málefna. Vel sé fylgst með straumum og stefnum á um heim allan, meðal annars sér horft til peningaspils á Netinu, enda færist þjónusta og afþreying nú meira og minna þangað.

HHÍ hafi ekki orðið ágengt í þeirri viðleitni, sem sé háð leyfisveitingu ráðherra. „Óheftur og eftirlaus aðgangur að erlendum netspilum, sem hafa ekki leyfi hér á landi, skilja ekkert eftir sig til góðra mála og eru án alls eftirlits er til dæmis mikið mein.“

Flest vestræn ríki hafi heimilað peningaspil á Netinu, með leyfum og undir ströngu eftirliti. Jafnframt segir Bryndís happdrættið hafa lagt sig fram við að stuðla að ábyrgri spilamennsku og haft frumkvæði á þessu sviði án aðkomu eða afskipta eftirlitsaðila.

Happdrætti Háskólans hafi meðal annars fengið vottun eftir staðli evrópskra ríkishappdrætta um ábyrga spilun (Responsible Gaming Gertificate).