
Segja stóran hluta innviða í ólagi og úrbóta þörf
Vegir í vondu standi og fráveitulagnir lélegar
Skýrslan var kynnt á fundi í Hörpu í dag, í henni er helstu innviðum landsins gefin ástandseinkunn frá einum upp í fimm og uppsöfnuð viðhaldsþörf metin. Sumt er metið í ágætis standi þar á meðal Keflavíkurflugvöllur og vatns- og rafveitukerfi en það sama er ekki hægt að segja um vegakerfið og fráveitukerfið. Fram kemur að stórir hlutar þjóðvegakerfisins uppfylli ekki lágmarksviðmið um slitlag og víða um land séu hættulegir vegkaflar. Að óbreyttu er ekki búist við því að þetta lagist mikið á næstu tíu árum. Í skýrslunni er líka greint frá því að stór hluti fráveitukerfisins sé kominn á aldur og afkastagetan óviðunandi. Ólíkt vegakerfinu séu horfurnar þó góðar og útlit fyrir að fráveitumál verði komin í betra horf eftir áratug.
Innviðakerfið sérstaklega verðmætt hér
Innviðakerfið á Íslandi er í skýrslunni metið á 155% af vergri landsframleiðslu. Það er sagt umfangsmeira hér en í flestum öðrum löndum og því hafa verulega þýðingu fyrir verðmætasköpun þjóðarbúsins. Vegirnir og rafveitan eru verðmætustu innviðirnir.
Sambærileg skýrsla var gerð árið 2017 og hefur staðan nær ekkert breyst síðan að mati skýrsluhöfunda. Ekkert innviðakerfi fær hæstu einkunn en kostnaður við að koma öllum kerfunum í viðunandi horf er talinn nema 420 milljörðum eða 14,5% af landsframleiðslu. Þar af er uppsöfnuð viðhaldsþörf vegakerfisins talin nema 160 -180 milljörðum.
Vilja innviðafjárfestingar umfram COVID-19-pakka
Ingólfur Bender, hagfræðingur Samtaka Iðnaðarins, segir brýnt bregðast við. „Það eru ekki horfur á því að ástandið batni, þegar litið er til næstu tíu ára. NIðurstaðan það verður að setja fjárfestingu í innviðum í forgang, hún er forsenda samkeppnishæfs atvinnulífs og bættra lífskjara, fjárfesting í innviðum í dag er hagvöxtur á morgun.“
Í skýrslunni segir að við séum enn að súpa seyðið af eftirhrunsárunum. Skýrsluhöfundar segja Covid-tengda viðspyrnupakka fagnaðarefni en að meira þurfi til eigi að vinna á uppsafnaðri viðhaldsþörf.