Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sakar Sigmund Davíð um dylgjur og bull

17.02.2021 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, stundi ljóta pólitík með því að vilja ekki veita þjónustu þeim innflytjendum sem komnir eru til landsins. Sigmundur sakar ráðherra um að gera sér upp skoðanir.

Frumvarp Ásmundar Einars, um móttöku flóttafólks og innflytjendaráð, snýst um að Fjölmenningarsetur fái víðtækara hlutverk vegna samræmdrar móttöku flóttafólks með því að fela stofnuninni að veita sveitarfélögum faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf í tengslum við móttökuna. Ráðherra sagði í umræðunni í gær að formaður Miðflokksins væri að blanda saman útlendingalögum og félagsþjónustu sveitarfélaga.

„Þannig að það voru dylgjur og bull að halda því fram að það væri með öðrum hætti hér áðan, og það er pólitík sem háttvirtur þingmaður er að keyra hér áfram og er að blanda saman ólíkum hlutum sem ég og háttvirtur þingmaður erum sammála um sem snýr að því hverjir fá að koma inní landið. Og við eigum ekki að taka fleiri en við getum. En að vilja ekki þjónusta fólkið sem kemur til landsins, þetta er ljót pólitík háttvirtur þingmaður,“ sagði Ásmundur Einar í ræðupúlti Alþingis í gær. 

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var á öðru máli. „Pólitík er vissulega orðin ljót nú til dags vegna tilburða ýmissa stjórnmálamanna eins og hæstvirts ráðherra til þess að stimpla fólk og gera því upp skoðanir. Og hæstvirtur ráðherra var ekki að gera neitt annað í þessu andsvari sínu hér. Hann á erfitt með að rökstyðja málið sitt og þess vegna gerir hann gagnrýnendum upp einhverjar allt aðrar skoðanir en þeir hafa haldið fram,“ sagði hann. 

Sigmundur og Ásmundur eru fyrrum samherjar í Framsóknarflokknum og Ásmundur Einar var, samhliða þingmennsku, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs þegar hann var forsætisráðherra.