Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Rosalega gott að vera byrjaður að veiða loðnu aftur”

17.02.2021 - 22:20
Mynd: RÚV / Rúnar Snær Reynisson
Íslensk loðnuskip koma nú í land hvert af öðru og skapa milljónaverðmæti í sjávarbyggðum víða um land. Skipstjóri, sem landaði loðnu á Vopnafirði í dag, segir rosalega gott að komast aftur á loðnuveiðar.

Það var Venus NS sem kom í morgun með fyrstu loðnuna á vertíðinni til Vopnafjarðar, 560 tonn. Loðnuflotinn er mestallur að veiðum í Meðallandsbugt og er þar rétt upp við land.

Búið að vera langt og erfitt stopp

Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi, segir talsvert að sjá af loðnu en lítill kraftur sé þó kominn í veiðina. „Það er náttúrulega rosalega gott að vera byrjaður að veiða loðnu aftur. Þetta er búið að vera langt og erfitt stopp bæði fyrir okkur og þjóðfélagið í heild sinni.”

„Þetta lítur allt bara mjög vel út”

Og biðin eftir loðnu á Vopnafirði er orðin löng, eins og í öðrum loðnuhöfnum, en þar hefur ekki verið unnin loðna síðan 2018. „Ástandið er bara gott, þetta er falleg loðna og hún er þokkalega stór. Hrognahlutfallið er komið í ásættanlegt horf, í kringum 16 prósent í þessum farmi sem við erum með núna. Þannig að þetta lítur allt bara mjög vel út,” segir Magnús Róbertsson, framleiðslustjóri hjá Brimi á Vopnafirði.

Hrognafulla loðnan verðmætust

Hrognafulla loðnan er verðmætust og hún fer til Japans, en einnig fer þessi Vopnafjarðarloðna til Austur-Evrópu. „Svo í framhaldi af því þegar við förum að taka hrogn, þá er loðnan skorin og hrognin hreinsuð frá og hratið eða frákastið sem fer af loðnunni þar fer í bræðslu. Það er mjög spennandi tími líka,” segir Magnús.

Loðnu landað á sex stöðum á Suður- og Austurlandi

Nú hefur verið tekið á móti loðnu á sex stöðum, frá Vestmannaeyjum austur á Vopnafjörð. Þetta verður ekki löng vertíð en stemningin er jafn góð þrátt fyrir það. Og Magnús segir stutt í næsta loðnuskip til Vopnafjarðar. „Þetta er náttúrulega fyrsti farmurinn okkar. Þannig að Víkingur, hitt uppsjhávarskipið okkar, það er á miðunum núna og vonandi kemur hann bara í framahaldi af Venus sem er að ljúka löndun í kvöld eða nótt.”