Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kosið til Grænlandsþings 6. apríl

17.02.2021 - 00:38
Mynd með færslu
Þing- og stjórnsýslubyggingar heimastjórnarinnar í Nuuk Mynd: KNR
Fulltrúar allra flokka á grænlenska þinginu náðu í dag samkomulagi um að halda skuli þingkosningar samhliða sveitarstjórnarkosningunum þar í landi hinn 6. apríl næstkomandi. Frá þessu er greint á vef grænlenska ríkisútvarpsins og haft eftir Vivian Motzfeldt, þingmanni Siumut og forseta þingsins.

Missti meirihlutann í síðustu viku

Grænlenska landsstjórnin undir forystu Kim Kielsens og Siumut-flokksins missti meirihluta sinn í síðustu viku, þegar Lýðræðisflokkurinn, Demokraatit, gekk úr skaftinu og stjórnin því aðeins með 11 af 31 þingmanni að baki sér.

Nýr formaður Siumut, Erik Jensen, leitaði þá hófanna hjá öðrum flokkum en fékk alstaðar afsvar. Fjórir stjórnarandstöðuflokkar, Lýðræðisflokkurinn þar með talinn, sendu svo frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem þeir lýstu því yfir að þeir hygðust krefjast þess að þing yrði rofið og efnt til kosninga.

Efasemdir um dagsetningu

Tillaga þess efnis var samþykkt í gærmorgun og við tóku umræður um framkvæmd þeirra. Nokkur andstaða var við dagsetninguna, samkvæmt frétt knr, af ótta við að sveitarstjórnarkosningarnar féllu alveg í skuggann af þingkosningunum. Að lokum féllust þó 27 af 31 þingmanni á að kjósa til alls í senn þings, sveitarstjórna og sóknarnefnda þriðjudaginn eftir páska.