Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hröð bólusetning áhættuhópa fækkar lífshættulega veikum

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Hröð bólusetning elstu aldurshópa fólks dregur verulega úr þeim fjölda sem líklegt er að veikist lífshættulega af COVID-19. Mikil útbreiðsla faraldursins hefði miklar afleiðingar fyrir heilbrigðiskerfið, þótt vel tækist til við að verja elstu hópana.

Þetta er meðal þess sem greina má í nýju hermilíkani forsætis- og heilbrigðisráðuneytis um áhrif bólusetningar á áhættustig vegna COVID-19.

Hermilíkanið, sem unnið var með teymi úr Háskóla Íslands, gerir kleift að skoða líklegar breytingar áhættustigs eftir því sem bólusetningum vindur fram.

Enn er fylgst náið með þróun mála og útbreiðslu ólíkra stofna veirunnar alþjóðlega svo að meta megi nauðsyn þess að aðlaga sóttvarnaraðgerðir að nýjum upplýsingum.

Þekkt er að öldruðum stafar margfalt meiri og bráðari hætta af sjúkdómnum en þeim sem yngri eru. Líkanið gerir mögulegt að greina hvers konar breytingar verði á samsetningu þess hóps sem gæti sýkst í faraldri sem upp kemur eftir að bólusetning er hafin.

Líknaninu er ætlað að gefa til kynna hvernig ólík forgangsröðun í bólusetningu hefur áhrif á fjölda innlagna, gjörgæsluinnlagna og andláta eftir að faraldur með skilgreindum fjölda hefur gengið yfir.

Fram kemur í tilkynningu að smám saman muni draga úr nauðsyn varúðarráðstafana í samfélaginu eftir því sem bólusettum fjölgar, en innanlandssmit eru nú í algeru lágmarki.

Góðri samstöðu um sóttvarnaraðgerðir er þakkaður sá árangur en að ávinningur af bólusetningum komi fram í vor eða snemmsumars, þegar búið verður að bólusetja þá hópa sem berskjaldaðastir eru.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir tilkoma bóluefna auka bjartsýni á að unnt verði að snúa til eðlilegs lífs á ný.

„Með áframhaldandi þrautseigju og samstöðu mun það gerast um leið og áhættan af farsóttinni hefur verið takmörkuð svo mjög að hún teljist ekki lengur ógna lífi og heilsu landsmanna.“